Guðfinna Gunnarsdóttir er matgæðingur vikunnar.
Ég þakka móður minni fyrir áskorunina. Ég hef lært mikið um eldamennsku af henni og mörgum, mörgum öðrum. Mér finnst gaman að elda þegar ég hef nægan tíma og get hlustað á góða tónlist á meðan. En skemmtilegast er að setjast niður með vinum og fjölskyldu og njóta afrakstursins.
Uppskriftirnar að þessum réttum koma úr öllum áttum, enda skemmtilegast að prófa sig áfram sjálfur og fara eftir því sem aðrir hafa gert allt í bland.
Ostafylltar kjúklingabringur með heslihnetum, borið fram með sætum kartöflum, sumarsalati og heimalöguðu pestó.
Kjúklingur:
- 4 kjúklingabringur
- 1-2 pk hakkaðar heslihnetur
- 1 búnt steinselja
- Ostur til fyllingar að eigin vali – best finnst mér að setja góðan blámygluost eins Roquefort og líka piparost eða vel þroskaðan gullost.
- Gróft salt og pipar
Eldfast mót smurt með olíu. Skerið vasa í hlið bringnanna og setjið ost inní. Saxið steinseljuna smátt, setjið í skál með hökkuðum heslihnetum, blandið saman og kryddið með salti og pipar. Veltið bringunum upp úr hnetublöndunni og setjið í eldfasta mótið. Ef afgangur er af hnetublöndunni, hellið henni þá yfir allt saman. Eldið í ofni við 180 gráður í ca. 40 mín. eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.
Sætar kartöflur a la Óli
- 2 stórar sætar kartöflur
- Hálfur hvítlaukur – eða meira eftir smekk
- Góður biti af fersku engiferi
- Einn ferskur rauður chili, eða þurrkaðar chiliflögur.
- Salt og pipar
- Góð ólífuolía í vænum slumpum
Kartöflurnar skornar í teninga, engifer, chili og hvítlaukur saxað smátt – allt sett í eldfast mót. Hellið olíu yfir og blandið vel. Kryddið með salti og pipar. Eldað í ofni í um 30-40 mínútur. Gott er að taka einu sinni út úr ofninum og hræra í.
Salat með bláberjum og piparosti
- Hálfur poki spínat
- Hálfur poki ruccola salat
- 2-3 vorlaukar
- Ein lítil askja bláber
- 1 lime
- Hálfur piparostur
Spínat og ruccola skolað og blandað saman. Vorlaukur saxaður og blandað saman við. Bláber skoluð og sett yfir ásamt piparosti sem búið er að saxa í litla bita. Kreistið limesafa yfir og rífið að lokum limebörk yfir allt saman.
Heimagert pestó
- 1 búnt basilika
- 25 g furuhnetur eða kasjúhnetur, annað hvort þurrristaðar eða lagðar í bleyti í 1/2 klst
- 25 g parmesan
- 1-2 hvítlauksrif
- smá sjávarsalt
- 1 tsk sítrónusafi
- 1/2 – 3/4 dl jómfrúarólífuolía
Setjð allt í matvinnsluvél og hrærið saman. Hægt er að leika sér með þessa grunnuppskrift og setja tómata, rucola, eða vorlauk í staðinn fyrir basiliku og þróa áfram sitt eigið pesto. Mikilvægt er að smakka sig áfram með þessa uppskrift og bæta við parmesan, olíu, sítrónu og salti eftir smekk.
Ég skora á Jónheiði Ísleifsdóttur, vinkonu mina og leiksystur að koma með uppskrift í næsta blað. Ég veit að hún er mikill matgæðingur.