2.3 C
Selfoss

Við eldumst öll

Fyrir tólf árum tók ég fyrst þátt í framboði til sveitarstjórnar í Rangárþingi eystra, áherslumál mitt var þá og er enn málefni eldri borgara. Nú er ég orðin eldri borgari sjálf og er stolt af því. Það er ekki sjálfgefið að ná þessum áfanga í aldri og vera í þokkalegu standi.

Langþráð markmið í málefnum eldri borgara náðist hjá okkur þegar ný álma við Kirkjuhvol var vígð árið 2018.  Velvilji samfélagsins til Kirkjuhvols er aðdáunarverður, félagasamtök og einstaklingar styrkja heimilið og gleðja íbúa þess á marga vegu, tónlistarhópar af ýmsum stærðum og gerðum koma í heimsókn, það eru haldnar helgistundir og starfsfólkið leggur sig fram við að finna alls konar dægrastyttingar. Félag eldri borgara heldur uppi fjölbreyttu félagsstarfi í sýslunni og hafa íbúar Kirkjuhvols nýtt sér það gegnum tíðina eftir getu. Kvenfélögin í sveitarfélaginu eru alltaf á vaktinni gagnvart heimilinu, má þar nefna Einingarkonur sem ásamt mörgum öðrum velgjörningum, mæta með bros á vörum og blóm í farteskinu á hverju vori til að fegra og skreyta kringum Kirkjuhvol.

Eldri borgarar eru mjög sundurleitur hópur. Árafjöldi er ekki algildur mælikvarði á heilsu fólks eða getu til að meðtaka nýjungar. Tæknin kemur fólki stundum í bobba, það er feimið við að leita sér hjálpar, vill ekki tefja vinnandi fólk !  Rafræn skilríki eru orðin lykill að samskiptum. Bankaviðskipti fara að mestu fram í heimahúsum. Það er liðin sú tíð þegar fólk hittist í bankanum með reikningahrúguna um mánaðamótin og spjallaði yfir kaffibolla. Að verða “ellilífeyrisþegi” getur reynst mörgum snúið því reglur og vinnubrögð Tryggingastofnunar, ákveðin af ríkisstjórn hverju sinni eru alls ekki auðskilin. Starfslok geta verið erfið, sumir upplifa höfnun meðan aðrir fagna frelsi til að leika sér dálítið. Kjör eldri borgara eru ekki ákveðin á borði sveitarstjórna en sum málefni okkar eru það, því þurfum við öll  að fylgjast með og láta sveitarstjórn vita hvað við viljum gera í okkar málefnum. Skerðingar greiðslna  almannatrygginga eru kapítuli, sem Íslendingar eiga að eyða úr sinni sögu. Veitingamaður einn í Reykjavík sem nýlega auglýsti eftir fólki 60 + í hlutastörf var alsæll með viðbrögðin.”Þetta er fólkið sem ég vil fá” sagði hann. Við í Rangárþingi eystra skulum sjá til þess að eldri borgarar upplifi sig “vera með” í samfélaginu.  Þetta er nefnilega fólkið sem byggði undirstöðurnar að velferð þjóðarinnar.

Gleðilegt sumar kæru sveitungar.

Ingibjörg Marmundsdóttir,
á lista Framsóknarmanna og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra

Nýjar fréttir