-7.3 C
Selfoss

Fyrirmyndarþjónusta fyrir allt fólkið okkar

Vinsælast

Undanfarin ár hefur mikil uppbygging átt sér stað í Þorlákshöfn og annarsstaðar í Ölfusi. Hingað streymir fólk úr öllum áttum og á öllum aldri sem vill setjast hér að og skapa ómetanlegar minningar til framtíðar. Þegar mikil fólksfjölgun á sér stað á stuttum tíma er hætt á að innviðirnir geti gleymst. Uppbyggingin er mikilvæg en við getum ekki mælt árangur okkar sem sveitarfélag ef byggingar skipta meira máli en innviðirnir. Við þurfum að geta boðið upp á þjónustu sem sæmir stækkandi sveitarfélagi.

Fatlaðir einstaklingar eiga skilið góða þjónustu

Málefni sem eru mér ofarlega í huga eru bætt þjónustu við íbúa sem búa við fötlun og raunar við alla íbúa. Við þurfum að reyna að finna betri lausnir varðandi búsetu fatlaðs fólks sem er margt fullfært um að búa í sjálfstæðri búsetu, fái það nægilegan stuðning til þess. Einnig þurfum við að auka þjónustu við börn með fatlanir eða sérþarfir. Þessi börn þurfa betri stuðning í íþrótta- og tómstundastarfi svo þau geti sinnt því af krafti, á sínum forsendum og eftir getu hvers og eins.

Ferðaþjónustan er mikilvæg grunnstoð

Ferðaþjónusta fatlaðra er þjónusta en sérstaklega þarf að skoða. Við þurfum að búa til skilvirkari þjónustu sem fylgir betra skipulagi. Það þarf ekki mikið út af að bera svo að þjónustan stangist á milli ólíkra verkefna hjá sveitarfélaginu og er þá kannski hugsanlega ekki veitt til fatlaðs aðila sem nauðsynlega þarf á henni að halda. Sérstaklega getur þetta gerst þegar það er bara einn bíll til afnota í fjölmörg ólík verkefni. Það þarf að vera hægt að treysta 100% á þessa þjónustu fyrir íbúa sem þurfa á henni að halda. Önnur verk eða viðvik ferðaþjónustunnar eða starfsmanna hennar mega ekki bitna á því að fatlaðir komist til vinnu eða geti sótt þá þjónustu sem það nauðsynlega þarf. Sérstaklega á þetta við um þegar það þarf að leita til nærliggjandi sveitarfélaga eftir þjónustu. Öll þurfum við að sinna okkar erindum, komast á ákveðna staði á ákveðnum tíma. Við myndum jafnvel kalla það sjálfsögð mannréttindi að hafa kost á því. Ég tel að sveitarfélagið þurfi að bæta einum ferðaþjónustubíl til viðbótar við þann sem nú er í notkun til að anna eftirspurninni í þjónustu við íbúanna. Við þurfum að standa saman að því að bæta alla þessa þjónustuþætti í sveitarfélaginu.

Við erum svo heppin að íbúar okkar með fatlanir og aðrar sérþarfir geta sótt vinnu á Viss til þess að brjóta upp daginn og halda sinni rútínu. Það að hafa tilgang og eiga sinn stað í samfélaginu, fara út og sýna sig og sjá aðra, ræða áhugamál sín og málefni líðandi stundar er félagslegur þáttur sem skiptir allt fólk gríðarlega miklu máli. Við þurfum að tryggja að afþreying og annað sé í boði til að koma til móts við þarfir allra sama á hvaða aldri fólk er og hver samfélagsstaða þess er.

Vinnum saman að betra samfélagi

Í komandi sveitarstjórnarkosningum og á næsta kjörtímabili langar mig að standa þétt við bakið á þeim einstaklingum sem þurfa mest á okkar aðstoð að halda. Ég vil líka hlusta og taka spjallið við foreldra sem vilja gera það allra besta fyrir börnin sín sem búa við fötlun sem og sérþarfir. Ég vil endilega að þessir foreldrar setji sig í samband við mig því ég er alltaf tilbúinn að hlusta og fá góð ráð um það hvað megi betur gera til að bæta þessa þætti í samfélaginu okkar.

Ég mun vinna af heiðarleika og ákveðni í samvinnu við ykkur öll. Það er mikilvægt að nýta kosningarétt sinn og með því að setja X við B styður þú Framfarasinna til góðra verka fyrir allt fólkið okkar.

Hlynur Logi Erlingsson,
stuðningsfulltrúi og frambjóðandi í 5.sæti XB Framfarasinna í Ölfusi

Nýjar fréttir