Það hefur verið áhugavert að fylgjast með kosningabaráttunni í Svf. Árborg það sem af er. Í upphafi hennar kom fram á sjónarsviðið hjá D-lista Sjálfstæðisflokksins nýtt fólk sem margir töldu efnilegt og góða skiptimynt fyrir þá er fyrir sátu á fleti. Einlægar og fagmannlega ritaðar greinar birtust í blöðum og á vefmiðlum í aðdraganda prófkjörs. Með fylgdu Casablanca myndbönd þar sem við fengum að heyra og sjá þeirra framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið. Allt saman leit þetta vel út og framtíðin björt fyrir næstu bæjarstjórn í Svf. Árborg að margra mati. Einhverjir báru meira að segja vonir til þess að þarna væri komið fram á sjónarsviðið fólk sem að væri málefnalegt.
Hvað svo?
Nú þegar að rúmar þrjár vikur eru í kosningar að þá skipta nýframbjóðendurnir allt í einu um kúrs. Bera fer á því að sömu tuggurnar sem heyrðust áður úr ranni D-lista fólks í bæjarstjórn og enginn nennti að hlusta á, fara að heyrast aftur. Meira að segja orðrétt. Að auki er nú er varað við yfirvofandi heitavatnsskorti, ýjað að því að Selfosshöllin hafi verið óþörf og að allt sé að fara fjandans til í sveitarfélaginu.
Ég bara trúi því ekki að oddviti D-lista Sjálfstæðisflokksins, sá sami og er deildarstjóri og yfirmaður íþróttamála í Svf. Árborg sé þeirrar skoðunar sem að hann er skrifaður fyrir á vísi, sunnlenska og nú síðast á dfs.is í dag. Það er frekar augljóst í mínum huga að nú hafa skuggastjórnendurnir tekið í taumana, stillt sínu efnilega fólki upp við vegg og gert þeim að hætta að vera svona lífsglöð. Svo langt hefur það gengið, að skuggastjórnendurnir skrifa nú orðið greinar í nafni nýframbjóðendanna.
Verið þið sjálf
„Lífið er ein umferð“ sagði mætur maður eitt sinn. Það er rétt og maður á að hafa gaman af því. Að því sögðu að þá hef ég eitt ráð að gefa til þeirra efnilegu frambjóðenda sem nú geysast fram á ritvöllinn og sjónarsviðið í Svf. Árborg. Leitið upprunans í ykkar stjórnmálaflokkum kæru nýframbjóðendur, ekki eltast við að klæðast fegurstu fötum keisarans hverju sinni og umfram allt kveðjið skuggastjórnendurna ykkar. Verið þið sjálf, það fer langbest á því og er heillavænlegast til árangurs.
Tómas Ellert Tómasson, formaður bæjarráðs,
oddviti M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Svf. Árborg