-1.1 C
Selfoss

Farsæll meirihluti í Árborg 2018-2022

Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Sigurjón Vídalín Guðmundsson

Þegar núverandi meirihluti Á, B, M og S-lista tók við stjórn Svf. Árborgar fyrir 4 árum voru uppi háværar raddir sem töldu að það myndi aldrei ganga upp að fjögur framboð gætu unnið saman í 4 ár. Sérstaklega voru þær raddir háværar úr ranni sjálfstæðismanna, enda höfðu þeir verið með hreinan meirihluta í sveitarfélaginu á árunum 2010 – 2018. Sérstakt var að hlusta á bæjarfulltrúa minnihlutans ítrekað tala niður meirihlutann vegna þess að hann væri samsettur úr 4 stjórnmálahreyfingum eins og það væri eitthvað óeðlilegt að svo margir gætu unnið saman að sameiginlegum verkefnum fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Ég hins vegar taldi frá byrjun að einmitt vegna þess að þessi fjögur framboð sammæltust um að nálgast verkefnið af ábyrgð og virðingu fyrir hvort öðru þá yrði samstarfið farsælt þótt stundum yrði tekist á eins og við mætti búast. Það varð samt áberandi strax frá byrjun að viljinn til að finna lausnir og miðla málum var hafður í öndvegi og því varð samstarfið jafn hnökralaust og raun ber vitni.

Það er mín sannfæring að það sé ekki nokkrum stjórnmálaflokki hollt að vera með hreinan meirihluta.  Þó það líti kannski vel út á pappír þá skapar það fleiri vandamál en það leysir. Það myndast ákveðinn umboðsvandi hjá þeim sem sitja í einföldum meirihluta vegna þess að þá þarf ekki samþykki annars stjórnmálaafls og því meiri hætta á að keyrðar séu í gegn ákvarðanir sem koma sér vel fyrir fáa en á kostnað allra annarra íbúa sveitarfélagsins. En það eru einmitt allir íbúar sveitarfélagsins sem kjörnir fulltrúar og þar með meirihlutinn eiga fyrst og síðast að vinna fyrir.

Einfaldur eða samsettur meirihluti?

Einfaldur meirihluti er í raun einræði og undir einræði líður spillingunni best. Stórir hagsmunaaðilar sem eiga sterk ítök í stjórnmálaflokkum sem ná einræðisvaldi koma sér þannig í kjörstöðu til að fá sínum málum framgengt umfram aðra. Þessir hagsmunaaðilar eru oft tilbúnir að ganga mjög langt í því að tryggja sínu stjórnmálaafli fylgis með það í huga að ná sem sterkustu ítökum í stjórn sveitarfélagsins í gegnum kjörnu fulltrúana sína. Þessir hagsmunaaðilar eyða því oft miklum fjármunum og tíma í viðleitni sinni við að tryggja “rétta” flokknum völdin.

Það liggur í hlutarins eðli að samsettur meirihluti er lýðræðislegri en meirihluti eins stjórnmálaafls. Í samsettum meirihluta heyrast fleiri ólík sjónarmið og málefnaleg umræða um hin ýmsu mál sem þarf að taka ákvarðanir um verður dýpri en ef ákvarðanir eru teknar af einsleitum hópi innan eins stjórnmálaafls. Samsettur meirihluti er líka líklegri til að standa gegn hagsmunapoti og þrýstingi stórra hagsmunaaðila eins og dæmin sanna.

Kjóstu með lýðræðinu!

Við í Samfylkingunni eru tilbúin að vinna áfram fyrir alla íbúa sveitarfélagsins og göngum bjartsýn til kosninga. Bjartsýn á að íbúar sveitarfélagsins kunni að meta fyrir hvað við höfum staðið á kjörtímabilinu og muni veiti okkur brautargengi til áframhaldandi starfa í þágu hagsmuna allra íbúa í bæjarstjórn Árborgar með því að setja X við S þann 14. maí nk.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson,
skipar 2 sæti á S-lista Samfylkingarinnar í Árborg.

Nýjar fréttir