-6.1 C
Selfoss

Taktu þátt í Styrkleikunum á Selfossi – einstök upplifun!

Vinsælast

Krabbameinsfélag Íslands heldur fyrstu íslensku Styrkleikana á Selfossi frá hádegi 30. apríl til hádegis 1. maí í samvinnu við Krabbameinsfélag Árnessýslu og í góðu samstarfi við Sveitarfélagið Árborg.

Krabbameinsfélag Íslands hefur gengið til liðs við Global Relay for Life, samtök í eigu ameríska krabbameinsfélagsins, til þess að geta haldið viðburðinn Relay for Life hér á landi. Viðburðurinn hefur fengið íslenska nafnið Styrkleikarnir sem er orðaleikur sem minnir okkur á styrkinn sem við finnum í samstöðunni, við það að ganga saman til að standa með fólki sem hefur verið snert af krabbameinum. Um er að ræða alþjóðlegan árlegan viðburð sem fer fram á yfir 5000 stöðum í yfir 30 löndum um allan heim. Hátt í 10 milljónir taka þátt í viðburðinum á hverju ári og fer sá hópur sífellt stækkandi.

Hvað eru Styrkleikarnir?

Styrkleikarnir eru fjölskylduviðburður sem snýst um að styðja við, heiðra eða minnast þeirra sem hafa fengið krabbamein. Leikarnir standa yfir í sólarhring, sem er táknrænt fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Heiðursgestir leikanna eru þeir sem greinst hafa með krabbamein og er sérstök dagskrá tileinkuð þeim.

Viðburðurinn er öllum opinn og kostar ekkert að vera með. Það er mjög gott hjólastólaaðgengi á svæðinu. Mikið er lagt upp úr að viðburðurinn sé fyrir alla og allir fari þetta á sínum hraða.

Allir geta tekið þátt

Liðin eru af öllum stærðum og gerðum, stór og lítil. Fjölskyldur, vinahópar, fyrirtæki, félagasamtök eða aðrir skrá sig sem lið á styrkleikarnir.is og vinna svo saman að því að hafa fulltrúa á hreyfingu með boðhlaupskefli allan sólarhringinn. Algengt er að liðsfélagar skiptist á að ganga í einn til tvo tíma í senn. Þetta er ekki keppni heldur snúast Styrkleikarnir um samstöðu, samveru og samtakamátt liðanna í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein.

Þú þarft ekki að vera hluti af liði til að vera með því þú getur skráð þig í Landsliðið sem er öllum opið.

Hvert lið ákveður hversu mikið það vill leggja í sína þátttöku en því meira sem liðið vinnur saman að því að gera viðburðinn einstakan því stærri verður upplifunin fyrir hvern og einn.

Eva Íris Eyjólfsdóttir er verkefnastjóri Styrkleikana og hefur tekið þátt í viðburðinum í Noregi bæði sem skipuleggjandi og þátttakandi.
Eva segist hlakka mikið til að upplifa Styrkleikana á Íslandi með fjölskyldunni þar sem hægt sé að fagnað sigrunum sem við eigum en einnig minnast þeirra sem við höfum misst. Hún segir upplifunina eitt af þeim augnablikum í lífinu sem maður tekur með sér alla tíð. Það sé einstakt að upplifa samheldnina og styrkinn sem myndast hjá liðunum og enn dýrmætara að fá að vera hluti af því.

Nánari upplýsingar um Styrkleikana má nálgast á styrkleikarnir.is

 

 

Nýjar fréttir