Við erum tólf vinkonur sem höfum þekkst og haldið hópinn þétt saman frá því í grunnskóla. Tengsl okkar eru sterk, við höfum upplifa gleði og sorgir með hvor annarri, verið stoltar, hlegið og grátið saman. í hverjum mánuði hittumst við og njótum þess að bæta í minningabankann okkar.
Innan okkar hóps höfum við kynnst krabbameini betur en við höfum kært okkur um. Ein úr hópnum, foreldrar, systkini og önnur skyldmenni hafa tekist á við krabbamein. Við höfum misst foreldra, nána ættingja, vini og kunningja úr krabbameini. Þessi íllvígi sjúkdómur hefur haft of mikil áhrif á okkar líf.
Saman myndum við eina sterka liðsheild og skráum okkur til leiks í Styrkleikunum 2022. Við sjáum tækifæri til að sýna samhug, samstöðu og ekki síst styrk til þeirra sem hafa tekist á við krabbamein og allra þeirra sem sjúkdómurinn hefur haft áhrif á með einum eða öðrum hætti. Við skráum okkur til leiks til að sýna hvor annarri kærleika og hlýju, sýna hvor annarri að við stöndum saman í einu og öllu og viljum gefa af okkar styrk og orku.
Styrkleikarnir eru einstakt tækifæri fyrir einstaklinga til að mynda liðsheild og sýna fólkinu sínu samstöðu og um leið að styrkja tengslin, kynnast nýju fólki á vettvangi þar sem allir koma saman með göfugt markmið og hugarfar. Liðin halda kefli á hreyfingu allan sólarhringinn, allir skila því framlagi sem þeir treysta sér til, ekkert er of lítið og ekkert er of mikið! Allar upplýsingar um viðburðinn má finna á heimasíðunni; www.styrkleikarnir.is
Vinkonuhópurinn Gyðjurnar hvetur alla vinahópa, stóra sem smáa, unga sem aldna að skrá sig til leiks og upplifa magnaðan viðburð sem mun skilja eftir sig fallegar og sterkar minningar.