Skátastarfið í forgrunni á skátaþingi
- Marta Magnúsdóttir, yngsti skátahöfðingi sögunnar lætur af embætti
- Harpa Ósk Valgeirsdóttir tekur við embætti skátahöfðingja
Skátaþing verður haldið á Bifröst um helgina, 1. – 3. apríl, og þar verður í forgrunni að vinna með uppfærðan dagskrárramma skátastarfsins. Rúmlega hundrað skátar í leiðtogahlutverkum munu mæta og leggja línur fyrir starfið á næstunni.
Sjálfkjörið er í öll embætti á þinginu. Marta Magnúsdóttir, sem verið hefur skátahöfðingi í 5 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Hún var yngsti skátahöfðingi sögunnar þegar hún tók við og í hennar tíð hefur verið mikil áhersla á þátttöku ungmenna í stjórnum og ráðum skátahreyfingarinnar.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, sem einnig hefur setið í stjórn sl. 5 ár og nú síðast sem aðstoðarskátahöfðingi býður sig fram í embættið og er hún sjálfkjörin. Harpa hefur leitt dagskrárráð skáta og beitt sér fyrir leiðtogaþjálfun. „Það hefur verið einstaklega gleðilegt að finna stuðning og hvatningu úr skátasamfélaginu,” segir Harpa. „Ég finn mikinn kraft meðal skáta eftir þá ládeyðu sem Covid hafði í för með sér,” segir hún og er bjartsýn um framhaldið. „Við viljum að skátahreyfingin sé aðgengileg öllum börnum og við bjóðum eldri skáta velkomna til verkefna.”
Uppfærður dagskrárrammi
Á skátaþinginu verður mikil áhersla á samhæfingu og samtal um dagskrárramma skátastarfsins, bæði heildarrammann sem og einstaka aldursbil. Skátarnir leggja áherslur á heildstæða og ævintýralega dagskrá. Í stefnu skátanna sem samþykkt var á síðasta skátaþingi er lögð áhersla á stuðningsefni fyrir skátaforingja, skátaaðferðina, dagskrárhringinn, flokkakerfið og hvatakerfið. Allt eru þetta þættir sem auðvelda skátafélögunum að innleiða ævintýralegt og metnaðarfullt skátastarf.
Harpa Ósk og Marta eru sammála um að mikilvægt sé fyrir skátahreyfinguna að eiga þetta samtal og eru ánægðar með hve margir starfandi skátaforingjar ætla að sækja skátaþingið, auk stjórna skátafélaganna í landinu.
Aukin áhersla á útilíf
Á þessu skátaþing[ i verður kjörið í fyrsta sinn í nýtt útilífsráð í samræmi við lagabreytingar frá síðasta skátaþingi. Hlutverk ráðsins verður að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja útivistartengt viðburðarhald.
Róleg endurnýjun og öflugri fagráð
Af sjö skátum í stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) halda fimm áfram og tveir bætast í hópinn. Stjórnin er sjálfkjörin eins og áður segir.
Lög BÍS gera ráð fyrir lágmarksfjölda í fagráð en þar sem fleiri framboð bárust og til að tryggja að ekki sitji eingöngu fulltrúar eins kyns í ráðum hefur stjórn BÍS boðað tillögu um að fleiri munu sitja í fagráðum en lágmarksfjöldi segir til um. Þannig verði öflugri fagráð og aukinn stuðningur við skátafélögin.