Sigrún Vala Vilmundardóttir er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.
Ég vil þakka Helgu fyrir áskorunina.
Þennan kjúklingarétt geri ég nánast í hverri viku við góðar undirtektir fjölskyldunnar!
Ítalskur kjúlli sem allir elska
1 laukur
5 hvítlauksrif
Olía
4 kjúklingabringur (skornar í ca 3-5 bita, eftir stærð)
Salt og pipar
1 tsk kjúklingakrydd
2-3 dósir hakkaðir tómatar frá Mutti
4 msk tómatpúrra
2 msk ítalskt krydd
1 dl fersk basilíka söxuð
1 pakki/dolla ferskir smátómatar
1 poki rifinn mozarella
Saxið laukinn og mýkið á pönnu upp úr olíu. Þegar laukurinn er farin að verða glær er hvítlauk bætt við. Setjið kjúklinginn í poka með 1 msk af olíu, kjuklingakryddi, salti og pipar og blandið vel. Setjið hann svo a pönnuna og er hann brúnaður við nokkuð háan hita á hvorri hlið. Hellið tómötunum, púrrunni og kryddunum (basilíkuni) saman við og látið malla í 10 mínútur. Hér má vel bæta við meira salti og pipar, magn fer eftir smekk. Ath ekki smakka til því kjúklingurinn er ekki fulleldaður. Bætið þá helmingnum af smátómötunum saman við og hellið osti yfir og smellið inn í ofn á 180 gráður í 25-30 mínútur eftir þykkt kjúklingsins. Berið fram með klettasalati með sítrónuolíu og afgangnum af tómötunum, soðnu spaghetti frá jamie Oliver og ferskum parmesan osti. Ég mæli með góðu Chablis hvítvíni með.
Eftirréttur: Súkkulaðimús með Oreo og berjum.
Sætur rjómi
2,5dl þeyttur rjómi með 2msk af flórsykri
Súkkulaðimús:
2,5 dl þeyttur rjómi
Bræðið 50gr rjómasúkkulaði og 50gr suðusúkkulaði
Kælið örlítið áður en 2 eggjarauðum er bætt við, ef þetta verður kekkjótt má bæta smá rjóma saman við. Súkkulaðinu varlega blandað saman við þeytta þrjómann.
Sæta rjómanum og súkkulaðimúsinni er svo hellt í lögum í falleg glös með muldu Oreo og berjum að eigin vali á milli. Látið stífna í ísskáp áður en borið er fram.
Ég vil skora á vinkonu mína hana Katrínu Þrastardóttur að koma með eldhústöfra úr Stekkjalandi í næsta blað.