Framundan er prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg. Ánægjulegt er hve margir bjóða fram krafta sína til vinnu í þágu samfélagsins. Hver sem úrslitin verða er ljóst að mikið mannval mun skipa framboðslistann.
Eitt er það sem ég ákvað fyrir löngu síðan, það er að styðja Svein Ægi Birgisson til setu á D-lista. Hann óskar eftir að skipa 3. sæti og mun hljóta mitt atkvæði til þess. Sveinn Ægir er ungur að árum, aðeins 24 ára. Þrátt fyrir það hefur hann öðlast mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum síðustu fjögur árin, sem varabæjarfulltrúi og fulltrúi í nefndum á vegum sveitarfélagsins. Sveinn Ægir tók mitt sæti sem fyrsti varabæjarfulltrúi D-lista eftir síðustu kosningar og hefur leyst það starf afar vel af hendi.
Sveinn Ægir þekkir vel til margra málaflokka í rekstri sveitarfélagsins, hefur starfað að fræðslu- og æskulýðsmálum, setið í framkvæmda- og veitunefnd og fylgst vel með málefnum sveitarfélagsins. Hann kemur inn með ferska sýn unga fólksins, sem vill byggja upp gott og fjölskyduvænt samfélag, án þess að festast í skuldaklafa.
Sveinnn Ægir er traustur og heiðarlegur og góður félagi og ég treysti honum ótvírætt til að taka meiri þátt í stjórnun sveitarfélagsins með því að skipa sæti í bæjarstjórn næsta kjörtímabil. Hann er maður sátta og samvinnu, en hefur skýra framtíðarsýn og er óhræddur við að taka á málum.
Tökum höndum saman og tryggjum Sveini Ægi sæti í bæjarstjórn, öllum til heilla.
Ásta Stefánsdóttir,
fyrrverandi bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.