-7.2 C
Selfoss

Árborg, vinsælasta borg Íslands

Vinsælast

Um hvað er deilt í sveitarfélaginu Árborg? Heimamenn tala helst gegn framtíðinni og hafa hlutina á hornum sér, allavega þegar farið er að skaka vopnum fyrir kosningar. Mér sýnist samt sem gömlum flóamanni komnum heim á ný að hvergi sé betra að búa. Þeir gömlu flytja heim í Árborg. Þeir ungu með börnin flytja heim í Árborg. Og allsstaðar er fólk að tala um að flytja hingað. Og hvar sem ég fer kemur fólk til mín að tala um nýja gamla sveitarfélagið mitt, og spyr gjarnan hvernig farið þið að þessu þarna á Selfossi? Ég segi ég veit það ekki, hljóta þeir sem stjórna bænum ekki að vera kraftaverkamenn? Konur eru menn líka, sagði Vigdís Finnbogadóttir eftirminnilega 1980. Mannstraumurinn hér austur fyrir fjall er mikill um 15% aukning árlega í Árborg, einstakt. Íslandsmet. Menn segja að næsta sveifla hér snúi að sjávarþorpunum Eyrarbakka og Stokkseyri. Þorlákshöfn, Ölfusið og Hveragerði eru einnig að springa út og allt austur í Vík að meðtöldu Rangárþingi ytra og eystra. Flóahreppurinn kemst í tísku eins og  Hörgárbyggð fyrir norðan. Uppsveitirnar okkar munu einnig njóta ávaxtanna. Til hamingju Árborgarbúar og Sunnlendingar öll vötn falla nú hingað austur. Ný Ölfusárbrú er að koma. Menningarsalur við Hótel Selfoss er komin á dagskrá hjá Árborg og Ríkisstjórninni. Glæsilegur nýr Miðbær er risinn á Selfossi og orðinn mikil miðstöð mannlífs og ferðamanna. Og hrifningin hjá fólkinu sem gengur hér um og dáist að gömlu/nýju húsunum mikil, það gónir í allar áttir og heldur vart vatni af hrifningu.  Og gamla MBF er orðið aðal hús bæjarins og tákn Selfoss. Íþróttahús, grunnskólar hafa verið byggðir og ný hverfi þjóta upp þannig að bærinn okkar Árborg er lifandi borg sem býr æskunni og ellinni gott líf. Skuldir vaxa þegar uppbygging á sér stað og fólks-fjölgun, en sömu skuldir minnka þegar tekjurnar fara að skila sér af öllum þeim sem hingað flytja. Ég trúi því að ég sé kominn í gott sveitarfélag og haldist heilsan sé hamingjan mín og minna. Það er gott að búa í Árborg! Flokkurinn minn, Framsóknarflokkurinn, kom að málum hér strax í öndverðu. Enn heldur hann utan um flaggið. Áfram Framsókn í Árborg.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir