Mikið hefur EM í handbolta létt okkur lundina í janúarmyrkri og covid takmörkunum, – frábær skemmtun og snilld að halda stórmót í janúar! Eins og flestir vita skilaði uppeldisstarf, akademía og afreksstarf handknattleiksins á Selfossi 5 landsliðsmönnum sem spiluðu á nýliðnu EM og voru burðarásar í landsliði okkar sem náði frábærum árangri á mótinu.
Ómar Ingi sannaði að hann er verðugur að titlinum íþróttamaður ársins þegar hann varð markakóngur mótsins og bæði besti sóknarmaður og besti leikmaður íslenska liðsins. Elvar Örn var besti varnarmaður Íslands og þó þeir Elvar Örn, Bjarki Már og Janus Daði, hafi misst úr leiki vegna Covid þá voru þeir burðarásar liðsins og Teitur Örn stóð fyrir sínu þegar hann fékk tækifærin.
Sem dæmi um mikilvægi „okkar manna“ má benda á að í úrslitaleiknum um 5 sætið skoruðu Íslendingar 33 mörk en 29 þeirra komu frá fjórum af Selfyssingunum „okkar“; Ómar Ingi með 10, Janus Daði 8, Elvar Örn 6 og Bjarki Már 5. Á tímabili áttu Selfyssingar 4 útileikmenn (af 6) gegn Noregi og þeir skoruðu 7 fyrstu mörk Íslands í leiknum. Þeir voru líka fjórir efstir Íslendinga í tölfræði leiksins. Svo áttum við auðvitað líka besta stuðningsmann mótsins; Kristínu Steinþórsdóttir, sem mætir ekki bara á EM heldur líka á alla heimaleiki Selfoss!
Bærinn okkar, uppeldis- og afreksstarfið hefur hlotið mikla athygli í fjölmiðlum og umræðum, hvarvetna er Selfyssingunum hrósað. Afreksmennirnir okkar eiga það svo sannarlega skilið, frábærir íþróttamenn sem hafa lagt allt í sölurnar til að ná árangri, hafa hugarfar sigurvegarans og ákefð afreksmannsins. Samhliða því hefur verið umræða um frábært uppbyggingarstarf, afreksstarfið í akademíunni og faglega þjálfun hér á Selfossi. Samfélagið allt fær mikla og jákvæða kynningu, sjálfboðaliðarnir og stuðningsmennirnir fá verðskuldað hrós.
Ég vil, fyrir hönd okkar sem vinnum að framgangi handboltans hér á Selfossi, þakka ykkur, frábæru landsliðsmenn fyrir frammistöðuna og skemmtunina.
Nú þegar EM í handknattleik er lokið og mótahald okkar kemst aftur á fullt, vil ég hvetja Selfyssinga og aðra Sunnlendinga til að styðja íþróttafólkið okkar, hvort sem er í yngri flokkum eða meistaraflokkum.
Við vonum að nú sjái bráðum fyrir endann á Covid fárinu og lífið fari að færast í eðlilegt horf. Covid hefur haft mjög alvarleg áhrif á tekjur handknattleiksdeildarinnar sem treystir mjög á stuðning áhorfenda og sjálfboðaliða, nánast engar tekjur hafa komið inn af áhorfendum í tvö ár og fjöldi fjáraflana og viðburða hefur fallið niður.
Við leitum því til ykkar um stuðning, við tökum við frjálsum framlögum inn á reikning deildarinnar; kt. 690390-2999, reikningur nr. 0152-26-2322. Ef einstaklingur styrkir deildina um 10.000 til 350.000 kr. á árinu dregst sú fjárhæð frá skattskyldum tekjum viðkomandi við álagningu 2023 og skattgreiðsla hans lækkar um 31 – 46% af þeirri fjárhæð, eftir því í hvaða skattþrepi viðkomandi er. Þannig geta stuðningsmenn nú notið hluta af stuðningi sínum við starfið sem er mjög jákvæð breyting. Sama gildir um fyrirtæki, allt að 1,5% af veltu. Munum að margt smátt gerir eitt stórt!
Takk fyrir frábæra skemmtun, sjáumst í Set-höllinni!
Þórir Haraldsson,
formaður handknattleiksdeildar Umf. Selfoss.