-1.4 C
Selfoss

Hugsar þú eins og ég?

Vinsælast

Textinn í lokalagi áramótaskaupsins „Ef þú hugsar eins og ég”  í ár hitti í mark að mínu mati. Lagið fjallaði um einstaklinga eða hópa sem eru ekki sammála. Bilið er farið að breikka. Skoðanir harðari. Hér er brot úr textanum. 

Ég sýni öllum skilning sem hugsa eins og ég
Ég sýni öllum virðingu sem hugsa eins og ég
Ég gef öllum tækifæri sem hugsa eins og ég
Sem hugsa eins og ég

Gleðilegt nýtt ár
Sama hver þú ert
Sama hvað þér finnst
Og hvað þú hefur gert
Ég vona þessi hátíð verði dásamleg
Ef þú hugsar eins og ég

Hugsar þú eins og ég? Hugsa ég eins og þú? Samfélagsmiðlar hafa þau áhrif að algorithminn raðar því sem „hann“ telur að þér líki þannig að þú sjáir það. Fólk hefur ólíkar skoðanir á ýmsu. Umhverfinu, sóttvörnum, pólítik, lögum, kvikmyndum og svo mætti lengi telja. Staðreyndin er sú að við verðum aldrei öll sammála. Við munum aldrei hugsa eins. Við erum ólík. Stundum tel ég mig geta lesið í hugsanir mannsins míns sem ég er búin að vera gift í 21 ár en hef alls ekki alltaf rétt fyrir mér. Stundum met ég svo á svipbrigðum dóttur minnar að henni finnist eitt og annað en það er kannski bara algjörlega misskilið hjá mér. Stundum held ég að eitthvað hafi gerst í skólanum hjá syni mínum sem kemur brúnaþungur heim en þá er hann kannski bara svangur. Rétt eins og ég get misskilið maka minn og börn þó svo ég þekki þau mjög vel þá getum við misskilið hvort annað. 

Undanfarnar daga hef ég verið að hugleiða orðið Kærleikur. Hvað er kærleikur? Það er hægt að skilgreina kærleika á ýmsan máta. Flestir myndu skilgreina kærleika sem eitthvað gott. Þú getur sýnt kærleika í verki. T.d. með faðmlagi, brosi, hlýjum orðum, gjöfum, góðverkum og svo mætti lengi telja. Kærleika er líka hægt að finna í virðingu. Virðingu fyrir skoðunum annarra. Virðingu fyrir ákvarðanatöku annarra. Virðingu fyrir öðrum. Við getum glaðst með öðrum, sýnt kærleika og verið vinir, þó að við hugsum ekki eins. 

Hvað ef við myndum ákveða að sýna kærleika í orði og verki í stað þess að reyna hvað við getum til að fá aðra til að vera sammála okkur? Hvað myndi gerast ef við ákveðum að elska þegar við förum á fætur á morgnana? Hvað myndi breytast ef við myndum ákveða að sýna kærleika í næstu búðarferð? Hvað myndi gerast ef við myndum hugsa okkur tvisvar um áður en við skrifum eitthvað á samfélagsmiðla. Spyrja okkur spurningarinnar „Er þetta kærleiksríkt?“ Myndi eitthvað breytast? Já, ég held það. Ég get gert betur. Þess vegna hef ég ákveðið í að æfa mig í að verða betri að sýna kærleika. Kærleika gagnvart öðrum og kærleika gagnvart sjálfri mér.

Verður þú með?

Kærleikskveðja,
Gunna Stella 

Nýjar fréttir