Fimm Selfyssingar eru í tuttugu manna leikmannahópi íslenska landsliðsins í handbolta sem tekur þá á EM í Ungverjalandi í janúar.
Þetta eru þeir Bjarki Már Elísson, Elvar Örn Jónsson, Janus Daði Smárason, Teitur Örn Einarsson og Ómar Ingi Magnússon, en þeir leika allir í þýsku úrvalsdeildinni. Haukur Þrastarson var ekki valinn í 20 manna hóp að þessu sinni, en Haukur hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu.
Landsliðið kemur saman til æfinga þann 2. janúar og spilar tvo vináttulandsleiki við Litháen á Ásvöllum í Hafnarfirði þann 7. og 9. janúar. Strákarnir halda síðan út til Búdapest þann 11. janúar þar sem liðið leikur í B-riðli ásamt Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil en hann fer einnig fram í Búdapest.
Leikir Íslands í riðlakeppni EM 2022 eru eftirfarandi:
14. jan. kl. 19:30 Portúgal – Ísland
16. jan. kl. 19:30 Ísland – Holland
18. jan. kl. 17:00 Ísland – Ungverjaland
Allir leikir Íslands verða í beinni útsendingu á RÚV. – Umf. Selfoss / ESÓ