0.6 C
Selfoss

Kolefnasporið mitt, þitt og okkar allra

Vinsælast

Hvað með íslensku slagorðin „Veljum íslenskt“ og „Ísland, já takk“? Hvað erum við að hugsa varðandi prentun íslenskra bóka?

Íslenskar bækur eru í dag prentaðar í fjölmörgum löndum, heimsálfum og til sölu á íslenskum bókamarkaði.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu 2. desember 2020, var fjöldi prentaðra bóka erlendis 519 (79,6%) og fjöldi prentaðra bóka á Íslandi 133 (20,4%). Það verður áhugavert að fylgjast með hver niðurstaðan verður í desember 2021.

Þegar horft er á prentun barnabóka á Íslandi 2021 og samanburður gerður á prentun 2019 og 2020, koma í ljós áhugaverðar staðreyndir.

Árið 2019 voru prentaðar 225 barnabækur á íslensku. Prentaðar erlendis voru 202 (90%) og prentaðar á Íslandi 23 (10%)

Sviðsmyndin 2020 var 241 prentaðar barnabækur á íslensku. Þar af voru prentaðar 221 (92%) bækur erlendis en 20 (8%) barnabækur á Íslandi.

Bókasafn á höfuðborgarsvæðinu gaf út lista yfir nýútgefnar barnabækur á íslensku fyrir september mánuð 2021. Á þessum lista eru 13 nýjar barnabækur.
Það er 1 (7,67%) bók „Ljóni og Lindís plokka“ prentuð á Íslandi hjá Prentmet Odda og 12 (92,33%) bækur prentaðar erlendis

Þessi samanburður sýnir augljóslega að prentun íslenskra barnabóka á stórlega undir högg að sækja. Kemur það til með að heyra sögunni til að það verði í framtíðinni prentaðar barnabækur á íslensku á Íslandi? Því prentun barnabóka er sá bókaflokkur, sem titlum prentuðum á Íslandi fækkar mest.

Einhver getur sagt: „Er þetta ekki allt í lagi, við búum í alþjóðlegu samfélagi“. Þ.a.l. fara íslenskir útgefendur með bækur í prentun, hvar sem er í heiminum, ef það er ódýrara en á Íslandi.

Það má setja spurningu við, hversu mikið ódýrara er að prenta barnabækur erlendis? Hvaða þjónustu ertu að fá varðandi þessa prentun? Hver eru gæði prentunarinnar?

Það getur verið að þetta sé ódýrara fyrir útgefandann, en er það hagkvæmara fyrir íslenskt samfélag? Hvert er kolefnisspor þess að prenta erlendis andstætt því að prenta á Íslandi. Hver króna sem fer í að prenta erlendis skapar ekki margföldunaráhrif á Íslandi, heldur skapar störf erlendis.

Við þurfum líka að spyrja okkur, erum við með þessu að styðja við erlend láglaunastörf eða barnaþrælkun? Á Íslandi er notuð græn orka. Hvernig orka er notuð við að prenta bækur erlendis? Eru það kol? Er prentunin Svansvottuð? Og svona mætti lengi spyrja.

Hvað gerist ef þessi mikla bókmenntaþjóð hefur ekki lengur möguleika á innlendri prentun? Það má ekki gleyma að í prentun bóka liggur mjög mikil fagþekking. Íslenska þjóðin hefur notið íslensk prentaðra bóka í ca. 500 ár. Þetta er stórkostlegur menningararfur, sem við öll þurfum að setja í öndvegi. Veljum því íslenskt.

Með vinsemd og virðingu.
Guðný Anna Annasdóttir
rithöfundur og útgefandi

Nýjar fréttir