Takk Raggi elskulegi bróðir. Endilega farðu nú að koma í mat til mín. Hér er réttur sem er einfaldur og bragðast eins og á 10 stjörnu veitingarstað.
350 g pasta (hvaða tegund sem er, ég nota spaghetti)
300 g beikon, skorið smátt
1/2 laukur, hakkaður
2 hvítlauksrif, hökkuð
3 egg
3/4 bolli fínrifinn Parmesan (jafnvel rúmlega það)
3/4 bolli rjómi
Salt og vel af svörtum pipar
Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.
Á meðan pastað sýður er beikonið létt steikt. Takið beikonið af pönnunni og setjið það til hliðar. Hellið fitunni af pönnunni en skolið hana ekki. Setjið pönnuna aftur á helluna, lækkið hitann í miðlungs lágan og steikið lauk og hvítlauk þar til er orðið mjúkt og komið með gylltan lit. Leggið til hliðar.
Hrærið saman eggjum, rjóma, fínrifnum Parmesan, salti og pipar í skál og leggið til hliðar.
Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af (geymið þó 1-2 dl af pastavatninu) og pastað sett aftur í pottinn. Hellið parmesan-eggjablöndunni hægt út í og hrærið stöðugt í pastanu á meðan. Sósan á að hjúpa pastað. Hrærið smá af pastavatninu saman við. Bætið beikoninu og lauknum saman við og hrærið öllu saman. Berið fram með ferskum Parmesan og meira af pipar.
Ekki er verra að hafa heimilisbrauð steikt upp úr miklu smjöri og kryddað með hvítlaukssalti.
Verði ykkur að góðu.
Vil skora á Valdimar Gylfason frænda minn sem býr þessar mundir í Noregi til að vera næsti matgæðingur.