Starfsfólk verktakans Gone West hefur nú lokið gróðursetningu sem líklega er ein sú stærsta sem um getur í sögu skógræktar á Íslandi, þar sem einn hópur gróðursetur á sama svæði. Hópurinn gróðursetti hátt í hálfa milljón birkiplantna á Hekluskógasvæðinu og upp í Hrauneyjar í nýliðnum septembermánuði.
Alls voru gróðursettar 456.000 birkiplöntur í um 210 hektara svæði og gekk gróðursetning mjög vel. Starfsfólk Gone West er mjög vel þjálfað og því er vel vandað til verka sem eykur mjög líkurnar á að plönturnar lifi og komist í vöxt. Lítils háttar næturfrost setti örlítið strik í reikninginn fáeina morgna en plöntur þiðnuðu þegar kom fram á daginn og komust heilar í jörð.
Og ekki er allt upp talið enn því annar verktaki, Guðjón Helgi Ólafsson, vinnur nú, ásamt Einari Páli Vigfússyni, að gróðursetja um 100.000 birkiplöntur neðar á sama svæði. Í allt verður því talsvert meira en hálf milljón birkiplantna komið í jörð á Hrauneyjasvæðinu áður en vetrar.
Þeir reitir sem nú hefur verið gróðursett í eru hugsaðir sem fræbankar fyrir framtíðina, að birkið sái sér sjálft úr þeim yfir nærliggjandi svæði á næstu áratugum. Ef vel tekst til mun birkið breiðast með sjálfsáningu yfir á þúsundir hektara í nágrenninu. Skógræktin hefur haft yfirumsjón með þessum verkefnum í samvinnu við Landgræðsluna sem unnið hefur að uppgræðslu á þessum svæðum á undanförnum árum. Þar hefur m.a. verið notað kjötmjöl til að koma næringu í landið og lífrænum ferlum í gang. Næsta vor stefnir Landgræðslan að því að bera á svæðin sem gróðursett var í nú í september. Plönturnar koma flestar frá Sólskógum í Kjarnaskógi, en einnig frá Kvistabæ í Biskupstungum. Hefur starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi flutt plönturnar upp á gróðursetningarsvæðin, ásamt flutningafyrirtæki. Nú er verið að flytja alla tómu bakkana í dreifingarstöð og er það eitt og sér ærinn starfi. Þaðan verða bakkarnir fluttir í gróðrarstöðvar og þar sem sáð verður í þá aftur að vori.
Gone West er fyrirtæki sem vinnur að gróðursetningu trjáplantna í nokkrum löndum Evrópu. Frá því að starfsemin hófst árið 2013 hefur starfsfólk þess gróðursett yfir fjórar milljónir plantna. Markmiðið með starfseminni er að bæta hag umhverfis og samfélaga fólks um allan heim með því að búa til siðræn, græn störf og aðstoða við að koma upp heilbrigðum vistkerfum eða endurheimta horfin landgæði.