-6.6 C
Selfoss

HR og Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði í samstarf

Vinsælast

Nemendur við Háskólann í Reykjavík munu njóta góðs af sérþekkingu starfsfólks Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í námi, geta sótt þangað starfsþjálfun og stundað rannsóknir, samkvæmt nýjum samningi sem undirritaður var í dag af Ragnhildi Helgadóttur, rektor og Þóri Haraldssyni, forstjóra Heilsustofnunar NLFÍ.

Samningurinn er til fimm ára og er markmið hans að koma á og efla samstarf HR og Heilsustofnunarinnar á sviði kennslu, starfsþjálfunar og rannsókna, með það fyrir augum að nýta sem best þá sérþekkingu, efnivið og aðstöðu sem þessar stofnanir búa yfir.

Við undirritun samningsins er lagður grunnur að samvinnu um kennslu og vettvangsnám grunnnámsnema í sálfræði og íþróttafræði og starfsþjálfun og rannsóknir meistaranema í klínískri sálfræði, hagnýtri atferlisgreiningu og íþróttavísindum og doktorsnema HR. Samningurinn tekur einnig til samvinnu um þróun á þeirri þjónustu sem veitt er á fagsviðum Heilsustofnunarinnar og endurmenntunar starfsfólks. Einnig verður leitast við að efla rannsóknarsamstarf við aðra aðila innan- og utanlands.

„Þetta er spennandi tækifæri til að vinna saman að mikilvægum málum, sem hafa gríðarmikið að segja um lífsgæði fólks og það er mjög ánægjulegt að nemendur okkar muni geta sótt í smiðju sérhæfðs og reynslumikils starfsfólks Heilsustofnunarinnar í sínu námi og verk-
efnum. Samningurinn opnar einnig tækifæri fyrir vísindafólk þessara stofnana til að vinna saman að spennandi rannsóknum á sviði heilsueflingar, forvarna og endurhæfingar,“ sagði Ragnhildur Helgadóttir, rektor, m.a. við undirritun samningsins í HR í dag.

Þórir Haraldsson, forstjóri Heilsustofnunarinnar sagði m.a.: „Þessi samningur er mikilvæg viðurkenning á starfsemi stofnunarinnar og skapar fjölmörg spennandi tækifæri til framþróunar, fyrir rannsóknir og endurmenntun starfsfólks og til að bæta þjónustu við skjólstæðinga okkar.“

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi. Háskólinn er öflugur kennslu- og rannsóknaháskóli og leggur áherslu á þverfaglegt starf í kennslu og rannsóknum í því skyni að efla færni og víðsýni.

Hlutverk Heilsustofnunarinnar í Hveragerði er að veita einstaklingshæfða, þverfaglega meðferð fyrir einstaklinga sem þurfa endurhæfingu og þjálfun í kjölfar sjúkrahúsvistar, slysa og/eða vegna tiltekinna sjúkdóma. Áhersla er lögð á að efla líkamlega, andlega og félagslega færni einstaklinga, auka lífsgæði og styrkja viðkomandi til athafna daglegs lífs.

Nýjar fréttir