-7 C
Selfoss

HH tekur að sér ADHD greiningar og meðferð fullorðinna á landsvísu

Vinsælast

Heilbrigðisráðherra hefur falið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að annast á landsvísu greiningar ADHD hjá fullorðnum. Heilsugæslan hefur um langt skeið sinnt þessari þjónustu við börn en einnig er fyrir hendi hjá stofnuninni mikilvæg reynsla af greiningu og meðferð fullorðinna með ADHD innan geðheilsuteymis fanga. Heilsugæslan mun annast þjónustuna í samvinnu við heilsugæslu og geðheilsuteymi í heilbrigðisumdæmum um allt land. Þess er vænst að með breyttu skipulagi takist að stytta bið eftir greiningum og stuðla að samfelldri þjónustu við einstaklinga með ADHD á viðeigandi þjónustustigi. ADHD greiningarteymi fyrir fullorðna verður áfram starfrækt á Landspítala en þjónusta þess verður bundin við einstaklinga með fjölþættan vanda sem þurfa á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu í samræmi við skilgreiningu þriðja stigs heilbrigðisþjónustu í lögum.

Ákvörðun um breytt fyrirkomulag ADHD greininga og meðferðar fullorðinna byggist á ýtarlegri greiningarvinnu í samstarfi ráðuneytisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala og samráði við ADHD samtökin. Á geðheilbrigðisþingi sem haldið var í desember síðastliðnum var fjallað um hvernig best megi tryggja samfelldari þjónustu við einstaklinga með geðrænan vanda og að þjónustan sé veitt á réttu þjónustustigi. Horft hefur verið til þeirrar umfjöllunar varðandi þessa breytingu, auk umfjöllunar á vinnustofu um rétta geðheilbrigðisþjónustu á réttum stað sem haldin var í júní síðastliðnum. Þar voru tveir vinnuhópar sem fjölluðu um ADHD greiningar og meðferð barna annars vegar og fullorðinna hins vegar. Með breytingunni er einnig tekið á þeim vanda sem falist hefur í því að veita sambærilega þjónustu á tveimur stöðum, þar sem skörp skil eru milli þjónustuveitenda sem ráðast af aldri sjúklinganna.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að með breytingunni sé unnið í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu um að veita fólki þjónustu á réttu þjónustustigi og íþyngja ekki efsta stigi þjónustukeðjunnar með verkefnum sem betur eiga heima á fyrsta eða öðru þjónustustigi heilbrigðisþjónustunnar: „Við höfum markvisst verið að byggja upp þverfaglega annars stigs heilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar sem gerir mögulegt að veita þjónustu sem þessa utan sjúkrahúsa. Það er í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og ég er viss um að þetta muni stuðla að mun betri og skilvirkari þjónustu eins og að er stefnt og stytta bið fullorðinna eftir greiningu og meðferð við ADHD“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Nýjar fréttir