Sveitarfélagið Árborg gerðist formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi þann 20. maí 2019 þegar Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, og Alma D. Möller, landlæknir, undirrituðu samning þess efnis í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi.
Með undirskrift samnings um Heilsueflandi samfélag einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis og öðrum sem að starfinu koma. Í markvissu lýðheilsustarfi er bilið á milli gagna, stefna og aðgerða brúað með því að nota lýðheilsuvísa, gátlista og önnur gögn til að meta stöðuna og forgangsraða í samræmi við þarfir hvers samfélags.
Með þátttöku í verkefninu mun Sveitarfélagið Árborg vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Hreyfing, geðrækt, næring og almenn lífsgæði verða í forgrunni í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum sveitarfélagsins sem um leið tengist innleiðingu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Í sveitarfélaginu hefur verið starfræktur starfshópur frá árinu 2019 sem hittist að jafnaði einu sinni í mánuði. Í maí á þessu ári var ráðinn inn lýðheilsufulltrúi tímabundið út árið 2021 til að sinna verkefnum tengdum lýðheilsu og Heilsueflandi samfélagi.
Hvað er Heilsueflandi samfélag?
Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl. Heilsueflandi samfélag byggir fyrst og fremst á forvarnastarfi og er lykilhlutverk í slíkri stefnumótun byggð á heilsu og líðan allra íbúa samfélagsins. Með heilsueflandi samfélagi er ekki verið að ýta undir boð og bönn heldur að gefa fólki möguleika á fjölbreyttara vali í heilsueflingu og á sama tíma gefa sveitar-
stjórnendum tækifæri til að huga að stærri þáttum er koma að rekstri og skipulagsmálum sveitarfélaga.
Leiðarljós Heilsueflandi samfélags eru eftirfarandi:
Virk þátttaka samfélagsins í heild, þ.m.t. hagsmunaaðila úr öllum geirum
Starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma
Valda ekki skaða (DO NO HARM)
Jöfnuður til heilsu með almennum aðgerðum og aðgerðum sem taka mið af þörfum viðkvæmra hópa
Sjálfbærni, leggja áherslu á að skipuleggja starf og árangur til lengri tíma
Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir hafa hlutverk. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar, s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum.
Holla valið þarf að vera eins auðvelt og kostur er s.s. að hreyfa sig, borða hollt, rækta geðið og ástunda grænan lífsstíl á sama tíma og spornað er gegn áhættuhegðun s.s neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna.
Þar að auki er stuðningur við starf Heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags.
Forvarnir og
þverfaglegt samstarf
Heilsueflandi stefnumótun ýtir undir þverfaglegt samstarf hagsmunaaðila innan sveitarfélaganna sem ætti að efla og auka við þekkingu og fræðslu þegar til lengri tíma er litið. Mikilvægt atriði í þeirri vegferð er að samþætta sjónarmið lýðheilsu og forvarna inn í alla ákvarðanatöku og útfærslu verk-
efna bæjarins. Sveitarfélögin bera mikla ábyrgð þegar kemur að því að veita íbúum þjónustu. Stofnanir innan sveitarfélagsins bera ábyrgð á menntun og fræðslu til barna og því mikilvægt að byrja forvarnstarf snemma. Við vitum að forvanarstarf virkar, það er langlaup sem kostar oft blóð, svita og tár. Mikilvægt er að hafa hugfast að forvanarstarf tekur breytingum, áherslur breytast með aukinni fræðslu og þekkingu sem vísindasamfélagið færir okkur með rannsóknum á hinum ýmsu sviðum. Góð þverfagleg teymisvinna, samskipti og fræðsla er hornsteinn árangurs í verkefnum sem þessum.
Sveitarfélagið Árborg er heilsueflandi, fjölskylduvænt og framsækið sveitarfélag í stöðugri þróun og örum vexti. Markmiðið er að í Árborg þróist til framtíðar samfélag sem er enn öflugra og heilbrigðara öllum til heilla. Við erum stolt af því vera þátttakandi í þessu verkefni og vonumst til að vera hvatning fyrir önnur fyriræki og stofnanir innan Árborgar að taka þátt og hoppa á lestina.
Allar fyrirspurnir og ábendingar sem tengjast lýðheilsu og Heilsueflandi samfélagi sendist á dianag@arborg.is.
F.h. Sveitarfélagsis Árborgar,
Díana Gestsdóttir,
lýðheilsufulltrúi í
Sveitarfélaginu Árborg.