-7.3 C
Selfoss

Vetrarstarfið fer aftur af stað hjá FEB Selfossi

Vinsælast

Vetrarstarf FEBSEL er að fara í gang eftir talsvert hökt frá því í mars 2020. Stundaskráin er birt í Dagskránni og verður nánar kynnt í Mörkinni „Opnu húsi“ fimmtudaginn 30. september næstkomandi kl. 14:45. Í boði eru á þriðja tug viðburða. Áhersla er lögð á fjölbreytta heilsuhreyfingu þar sem allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Í Mörkinni verður boðið upp á léttar æfingar. Árborg kemur myndarlega að bættri lýðheilsu eldra fólks með því að standa að styrktaræfingum inni í nýja íþróttahúsinu sem senn verður tekið í notkun. Undanfarið hafa æfingar verið utandyra á íþróttavellinum undir stjórn þjálfara. Stefnt er að því að verkefnið verði í anda „heilsueflingar Janusar“, Umf. Selfoss mun koma að þróun og skipulagi hennar. Skólastjórar grunnskólanna á Selfossi hafa opnað á afnot af smíðastofum skólanna fyrir ýmiss konar handavinnu. FEBSEL er afar þakklátt fyrir þá vinsemd sem yfirstjórn félagsþjónustunnar og skólastjórarnir hafa sýnt í þessu máli. Hugmynd hefur verið komið til félagsþjónutu Árborgar þess efnis að Byggðasafn Árnessýslu gefi sjálfboðaliðum í hópi eldra fólks kost á að koma að verkefnum sem þeim hæfir og til falla í hinum glæsilegu húsum á Eyrarbakka. Í hópi eldra fólks er margt handlagið fólk sem gæti varið hluta af tíma sínum í að lagfæra muni og ýmislegt annað gert. Ef vel tækist til gæti þetta verið angi af því sem nefnist „Karlar í skúrum“ þar sem áhugasamt eldra fólk gefst kostur á að koma saman og hafa félagsskap.

Starfsemi félags með um 750 félagsmenn er umfangsmikil og mörg eru handtökin. Margir koma að félagstarfinu með framlagi í nefndum og hópum sem skipuleggja tómstunda- og félagsstarfið. Öllu því fólki er þakkað fyrir þeirra framlag. Stundaskrá FEBSEL gefur þeim sem eru 60 ára og eldri, og ekki eru í félaginu, tilefni til að gerast félagar. Árgjaldið er 3.500 krónur að viðbættu innheimtugjaldi. Hægt er að sækja um á heimasíðu febsel.is.

Þorgrímur Óli Sigurðsson,
formaður FEB Selfossi.

Nýjar fréttir