-7.2 C
Selfoss

Lítil fyrirtæki mynda stóra heild

Vinsælast

Á ferðum mínum um kjördæmið hef ég talað við marga restraraðila lítilla fyrirtækja sem mörg hver hafa verið byggð upp með þrautseigju og dugnaði eigenda. Nýsköpun hvers konar blómstrar víða og þeir sem reka fyrirtæki vita best hversu mikilvægt það er að hafa stuðning til þess að komast af stað. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hornsteinn vinnumarkaðarins hér á landi. Þau stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land ásamt því að vera vinnuveitandi flestra. Árið 2019 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 70% af heildarlaunum hér á landi. Fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn greiddu 414 milljarða í laun og meðalstór fyrirtæki með allt að 250 starfsmenn greiddu 241 milljarð. Af þessu kemur mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja bersýnilega í ljós. 

Erfitt rekstrarumhverfi hraðahindrun 

Rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja getur reynst erfitt, eðli máls samkvæmt. Þau neyðast til að greiða há gjöld og þau upplifa oft að þeim sé þröngvað í box umlukið reglugerðum. Þetta gerir þessum fyrirtækjum oft lífið leitt ásamt því að hindra stækkun eða verða þeim jafnvel ofviða. Allt þetta er vissulega ekki jafn erfitt viðureignar fyrir stóru fyrirtækin, en fjölskyldufyrirtækin, smáar verslanir, kaupmaðurinn á horninu o.fl. eiga oft erfitt með að finna rekstrargrundvöll við þessar aðstæður svo ekki sé minnst á sprotafyrirtækin þar sem frumkvöðlar byrja oft með tvær hendur tómar. 

Framsókn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og þekkir mikilvægi þeirra fyrir íslenskt atvinnulíf. Að stuðla að því að þau fyrirtæki vaxi og dafni er öllu samfélaginu til hagsbóta. Því vill Framsókn lækka tryggingagjald á lítil og meðalstór fyrirtæki og með því rétta þeim hjálparhönd.

Framsókn ætlar að breyta lögum og reglum um gjöld og skatta þannig að tekið verði tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu. Þetta á við mikinn fjölda mismunandi opinberra gjalda, sem dæmi má nefna gjöld vegna leyfa, úttekta eftirlitsaðila og fleira.  

Með þessu er verið að létta greiðslubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja til muna og það skiptir þau máli. Við vitum að margt smátt gerir eitt stórt. Rétt eins og mörg lítil fyrirtæki mynda stóra heild á íslenskum vinnumarkaði.

Jóhann Friðrik Friðriksson
2. sætið á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Nýjar fréttir