Það var ánægjuleg stund þegar Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra leit við hjá Sigurhæðum á Selfossi. Verkefnið er frumkvöðlaverkefni sem Soroptimistaklúbbur Suðurlands ýtti úr vör, en samstarfsaðilar verkefnisins eru sveitarfélög á Suðurlandi, ýmsir sjóðir og ráðuneyti. Verkefnisstjóri Sigurhæða er Hildur Jónsdóttir, en hún tók á móti ráðherra og sagði frá starfseminni. Sigurhæðir eru fyrsta samhæfða þjónustan við þolendur kynbundins ofbeldis í sunnlensku nærsamfélagi.
Nauðsynlegt að úrræði eins og Sigurhæðir sé í sunnlensku nærsamfélagi
Heiða Ösp Kristjánsdóttir, deildarstjóri félagsþjónustu í Árborg sagði að úrræðið Sigurhæðir hefði mikla þýðingu fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar sem þurfa á þessháttar hjálp að halda. Því sé mikilvægt og nauðsynlegt að hafa úrræði eins og Sigurhæðir í nærsamfélaginu. „Það skiptir höfuðmáli að við höfum úrræði sem þetta í okkar heimasamfélagi.“
Úrræðið virkar– notendur ánægðir
Heiða situr fyrir svörum frá sjónarhóli félagsþjónustunnar í Árborg þegar blaðamaður innir eftir því hver árangur sé af úrræðinu. Hún segir að þau mál sem hefur verið vísað í úrræðið hafi gengið vel og fengið jákvæða útkomu og þjónustuþegar ánægðir með þá þjónustu sem úrræðið veitir þeim.
Brýnt að tryggja fjármagn til frambúðar
Í máli Hildar kom fram að nauðsynlegt væri að tryggja fjármagn fyrir starfsemina til lengri tíma. Mikil ásókn væri í verkefnið og ekki sæi fyrir endann á því. Ráðherra tók undir það og hvatti samtökin til að láta ekki deigan síga og innan ráðuneytisins væri velvilji fyrir verkefnum á borð við Sigurhæðir. ,,Það var frábært að fá að heimsækja Sigurhæðir á Selfossi og sjá kraftinn og metnaðinn í starfinu. Úrræði á borð við Sigurhæðir eru mikilvæg nærumhverfi sínu og á síðustu árum hefur þeim sem betur fer fjölgað og þau farið víðar um landið en bara um höfuðborgarsvæðið,” sagði Ásmundur Einar.