-8.9 C
Selfoss

Áfram SELFOSS!

Vinsælast

Fyrir sex árum birtum við uppskrift að Selfoss peysu fyrir prjóna no 6. Það hefur sannarlega verið gaman að sjá slíkar peysur hlaupandi um bæinn og líka að sjá ýmsar útgáfur í öðrum litum og fyrir önnur félög. Nú birtum við sömu uppskrift úr öðru garni fyrir prjóna no 4 fyrir tveggja ára. Fljótlega verður hægt að fá uppskriftina hjá okkur fyrir eins til sex ára.

Garn: Merino Fine 120 frá HJERTEGARN, 4 dokkur dökkrautt og 1 dokka hvítt.

Verkfæri: Sokkaprjónar eða Crazy Trio og hringprjónar 40 og 60 sm langir no 3,5 og 4. Hjálparnælur og prjónamerki.

Prjónafesta 22 lykkjur = 10 sm. Vídd 66 sm.

Bolur: Fitjið upp á hringprjón no 3,5 með aðallit 144 lykkjur, tengið saman í hring og prjónið brugðning, 1 l. sl., 1 l. br.. Í annarri hverri umferð er slétta lykkjan prjónuð snúin, alls 12 umferðir. Skiptið yfir á hringprjón no 4 og prjónið slétt prjón þar til bolur mælist 24 sm (má lengja eða stytta eftir smekk og líkamsbyggingu. í lokin eru 4 síðustu lykkjurnar settar á hjálparnælu auk 4 fyrstu í næstu umfer. Geymið bolinn.

Ermar: Fitjið upp með aðallit á prjóna no 3,5 40 lykkjur og prjónið brugðning eins og á bol. Skiptið yfir á prjóna no 4 og prjónið slétt prjón. Í fyrstu umferðinni er aukið jafnt út um 6 lykkjur. Aukið út um 2 lykkjur á miðri undirermi í sjöundu hverri umferð fjórum sinnum. Þá eru á prjóninum 54 lykkjur. Prjónið þar til ermi mælist 24 sm. Setjið 8 lykkjur á hjálparnælu á miðri undirermi í síðustu umferðinni. Þá eru eftir 46 lykkjur. Prjónið ermina við bolinn og síðan 64 lykkur að hægra ermagati og setjið næstu 8 lykkjur á hjálparnælu. Prjónið hina ermina eins og prjónið hana við bolinn. Klárið umferðina, 64 lykkjur og setjið prjónamerki sem er þá á milli bakstykkis og vinstri ermar.

Berustykki: Nú eiga að vera á prjóninum 220 lykkjur. Prjónið með aðallit 3 umferðir. Eftir þetta er prjónað eftir munsturteikningunum. Munstur 1 fyrstu 55 lykkjurnar (gott að setja prjónamerki þar), síðan munstur 2 og að lokum aftur eftir munstri 1 að fyrra prjónamerkinu alls 10 umferðir. Prjónið því næst 3 umferðir með aðallit og síðan eftir munstri 3. Fylgið leiðbeiningum um úrtökur. (Í tveim síðustu úrtökunum nýtur munstrið sín betur ef fyrri lykkjan er tekin óprjónuð, sú seinni prjónuð og þeirri óprjónuðu steypt yfir.)

Skiptið yfir á styttri hringprjón þegar það hentar. Þegar munstrinu er lokið eru á prjóninum 88 lykkjur.Skiptið yfir á prjóna no 3,5 og prjónið brugðning eins og áður xxx umferðir. Fellið laust af.

Frágangur: Gangið frá lausum endum. Lykkið saman undir handvegum. Pressið peysuna létt á röngunni nema brugðninga, eða þvoið í volgu sápuvatni, kreistið vatnið úr og leggið til þerris. Garnið þolir vel þvott í þvottavél við 30 gráður.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir