-6.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Selur með kartöflum, aspas og truflumajones-sósu

Selur með kartöflum, aspas og truflumajones-sósu

Selur með kartöflum, aspas og truflumajones-sósu
Bjarki Gylfason er sunnlenskur matgæðingur.

Ég veit ekki hvort ég sé of seinn með þetta, bróðir minn lét mig vita af þessu í gær. En hér kemur allavega ein uppskrift og bull með því. Ef ég er of seinn þá verður bara að hafa það:)

Matreiðsla er mér mikið hjartans mál og get ég verið einstaklega matsár. Ég fer aldrei sár úr matarboðum hjá Valla bróður enda eldar Tinna í flest skiptin. Hún ætti að negla hér inn frægu blómkálspizzunni sinni. Mjög góð!

Selur er eitthvað sem margir landsmenn halda að sé vondur matur. Flestir vilja ekki smakka hann sökum þess „hve ógeðslegur hann er“. Ef þú borðar hrefnu þá er ekki spurning hvort þú borðir sel því hann er einfaldlega miklu betri! Selur er algjört lostæti!

Sértu veiðimaður, þá byrjar þú á því að ná þér í sel. Eftir aflífun er mjög mikilvægt ferli sem fer í gang. Þú skerð úr honum hryggvöðvann, smellir honum beint í poka og ofan í tösku. Alls ekki bíða með þetta. Sé þetta gert mjög fljótlega þránar kjötið ekkert. Mikilvægt er að setja í kæli yfir eina nótt ef það á að frysta hann. Þetta er gert til þess að ná dauðastirðnun úr kjötinu. Sértu ekki veiðimaður, þá vona ég bara að þú þekkir einn slíkan.

Ég læt hann liggja í kæli í eina viku áður en hann er matreiddur. Mikilvægt er að taka selinn úr kæli 4-5 tímum áður en hann er eldaður. Gott er að skera hann í þunnar sneiðar og nota eingöngu salt og pipar, að sjálfsögðu eftir smekk. Passið að hafa sneiðarnar ekki of þykkar.

Setjið smjör á pönnu og hafið hana vel heita. Létt steikið sneiðarnar á hvorri hlið, ekki mikið meira en mínúta á hvorri hlið.

Leyfið kjötinu að hvíla í fáeinar mínútur áður en það er borðað.

Þið getið leikið ykkur vel með meðlætið. Ofnbakaðar kartöflur og ferskur aspas steiktur upp úr smjöri (létt saltaður) og köld truflumajones-sósa henta vel með þessu. Truflumajó er einfaldlega Hellmans majónes og trufluolía blandað saman. Trufluolían fæst í flestum stærri matvörubúðum. Þið smakkið þetta einfaldlega til eftir því hve sterka sósu þið viljið. Ég eldaði þetta í matarboði hjá tengdafjölskyldunni og viðbrögðin leyndu sér ekki.

„Þetta er eins og úrvals nautakjöt! Bara betra!“

Ég vil næst skora á Pétur Viðar Kristjánsson, þann þúsundþjala smið. Pétur er einn af mínum betri vinum og býð ég honum oft í mat þar sem hann eldar fyrir mig. Væri gaman að sjá hvað hann hefur upp á að bjóða. 🙂