-5 C
Selfoss

Skólabragur til fyrirmyndar á Hellu og Laugalandi

Vinsælast

Á vorfundi stjórnar Odda bs með áheyrnarfulltrúum kennara og foreldra voru kynntar niðurstöður á ytra mati fyrir grunnskólana á Hellu og Laugalandi.

Ytra matið er unnið af sérfræðingum Menntavísindastofnunar og þar er tekið fyrir allt skólastarfið og sérstaklega litið til stjórnunar, náms og kennslu, framkvæmdar á innra mati og skólabrags. Ytra matið er því mjög víðtækt og skólastarfið skoðað frá öllum hliðum.

Margar gagnlegar ábendingar koma fram í niðurstöðum sérfræðinganna en heildarniðurstaðan er afar ánægjuleg því báðir skólarnir koma vel út úr þessari úttekt og sérstaklega til þess tekið hve skólabragurinn er til mikillar fyrirmyndar.

Stjórn Odda bs. færði á vorfundinum skólastjórum grunnskólanna þeim Sigurgeiri Guðmundssyni og Sigurjóni Bjarnasyni táknræn blóm við þetta tækifæri nú þegar fengist hefur formleg staðfesting á hinu faglega sterka og blómlega skólastarfi grunnskólanna á Hellu og Laugalandi.

Skóla- og sveitarstjórnafólk úr Rangárþingi ytra og Ásahreppi

Á vorfundinum var einnig farið yfir reynsluna af nýrri skólastefnu og því fyrirkomulagi að reka skólana alla undir sama hatti innan byggðasamlagsins Odda sem er í eigu Rangárþings ytra og Ásahrepps. Almenn sátt virðist ríkja um stefnuna og fram kom að reynslan eftir þetta fyrsta rekstrarár Odda bs er góð og bendir til þess að fræðslumálin séu í farsælum farvegi hjá sveitarfélögunum Rangárþingi ytra og Ásahreppi. Innan Odda bs. eru starfræktir fjórir skólar þ.e. Grunnskólinn á Hellu, Laugalandsskóli, Leikskólinn Heklukot og Leikskólinn á Laugalandi. Þetta kemur fram á heimasíðu Rangárþings ytra.

Nýjar fréttir