Þannig var ort um lítinn dreng sem boðinn var upp sem sveitarómagi „niðursetningur“ um þar síðustu aldamót vegna fátæktar foreldra hans sem ekki treystu sér til að fæða hann eða klæða. Sá sem sem lægsta meðlagsgreiðslu bauð fyrir drenginn fékk hann til ráðstöfunar að eigin vilja þar sem hann mátti oft sæta harðræði af hendi heimilisfólks og séð var eftir hverjum bita matar sem ofaní hann fór. Þó ekki séu bein líkindi með drengnum og aðstæðum eldri borgara í dag finnum við stundum til: sárinda, leiða og jafnvel reiði þegar fjallað er um aðstæður og afkomu okkar eldri borgara og við liggur að örli á samviskubiti og skömm yfir því að við skulum vera slíkur fjárhagslegur baggi og vandamál á samfélaginu. Umræðan er iðulega á þann veg að rekstur heilbrigðiþjónustu og heimiliskostnaður eldri borgara sé slíkur að hann sé við það sliga bæði sveitarfélög og ríki þar sem hver vísar á annan og reynir með öllum meðulum mögulegum að færa þennan kostnað frá sér til hins aðilans. Það er, og það á að vera siðferðileg skylda hins opinbera: sveitarfélaga og ríkis að tryggja eldri borgurum sem áhyggjuminnst ævikvöld. Árið 1974 var komið á skylduaðild launafólks að lífeyrissjóðum og var og er þeirra hlutverk að varðveita og ávaxta þann hluta launa fólks sem þeim er trúað fyrir. Í upphafi voru sjóðirnir aðallega ávaxtaðir með kaupum á Ríkisskuldabréfum og inneignum í íslenskum bönkum með þeim vöxtum sem bankarnir buðu á innlánsreikningum sínum. Í þeirri óðaverðbólgu sem lengi geisaði á þeim tíma mun á stundum ávöxtun hafa verið neikvæð , en síðar fundu sjóðstjórnirnar aðrar leiðir til betri ávöxtunar bæði innan lands og utan. Neikvæð umræða um aðstæður og kjör eldri borgara hefur slæm áhrif jafnvel þau þótt umræðunni sé ætlað að styðja málstaðinn. Hafið í huga að við eldri borgarar erum ekki ellilífeyrisþegar heldur erum við eftirlaunafólk sem áunnið hefur sér rétt til eftirlauna með skattskyldu vinnuframlagi og hlutagreiðslu launa í lífeyrissjóði um áratuga skeið. Stofnun lífeyrissjóða var í upphafi hugsuð sem trygging fyrir því að eftirlaunafólk hefði viðunnandi framfærslueyri í höndum og ætti fjárhagsáhyggjulaust ævikvöld, en líklega hefur engin séð fyrir hvernig mál myndu þróast og að lífeyrisréttindi myndu skerða stórlega framlag Tryggingastofnunar til eftirlaunafólks. Því miður eru þeir margir já alltof margir sem eingöngu hafa lífeyri sér til framfærslu og sem eiga verulega erfitt að láta dæmið fjárhagslega ganga upp og þurfa að búa við óviðunnandi aðstæður, en þau eru því miður kraftlítill þrýstihópur um bætt kjör. Eitt ætti þó að vera öllum ljóst að tenging milli lífeyrissjóðsgreiðslna og lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar verður aldrei að fullu rofin og því á baráttan að beinast að því að að Tryggingastofnun breyti skerðingarákvæðum sínum til betri vegar fyrir eftirlaunafólk, viðmiðunarupphæðir til skerðingar eru alltof lágar sem gerir m.a. fólki ómögulegt að afla sér viðbótartekna með eigin vinnuframlagi eigi það þess kost og hafi til þess heilsu, þessu þarf að breyta. Ég géld vara við því að taka hátíðlega kosningaloforð pólitíkusa um annað, þessi tengsl verða ekki rofin og engin stjórnmálaflokkur hefur í raun áhuga á eða vilja til að breyta þessum tengslum. Mér þykir miður að oft er það svo að þeir sem hæst láta og mest kvarta eru þeir sem í raun hafa það skást, en hinir sem í bökkum berjast eru í hinum þögla hópi sem lakasta hefur afkomu. Mörgu má breyta sé vilji til t.d. vantar tilfinnanlega búsetuúrræði fyrir þá sem eru svo lánsamir að búa við þokkalega heilsu, en eru einir heima og einnig þeirra sem aðeins bíður einmanaleg sjúkrarúmslega. Mig langar einnig að benda á að símanúmer og heimilisföng hafa í mörgum tifellum horfið af heimasíðum stofnana og fyrirtækja og er slíkt alls ekki tímabært því margir eldri borgarar hafa ekki kunnáttu eða færni til að leita að símanúmerum á netinu eða senda fyrirspurnir í tölvupósti. Að lokum getum við eldri borgarar ekki fengið að njóta þess árið 2021 að hafa skilað okkar hlutverki og þáttöku í atvinnulífi til komandi kynslóða án þess að hafa samviskubit yfir því að hafa náð því að öðlast rétt til eftirlauna? Sú kynslóð sem nú telst til eldri borgara er ekki kvartsár kynslóð. Við sem eldri erum eigum ekki að hörfa undan þeim sem að okkur sækja við eigum ekki heldur að ráðast að þeim með offorsi heldur eigum við að mynda sóknarmiðaða vörn til að sækja og tryggja okkar rétt til mannsæmandi kjara. Það vilja allir ná háum aldri, en engin vill verða gamall öðrum til óþurftar og uppá aðra komin eins og vesalings niðursetningurinn..
Ómar Franklínsson á Selfossi.