-4.8 C
Selfoss
Home Fréttir Takk fyrir að velja Ísland!

Takk fyrir að velja Ísland!

0
Takk fyrir að velja Ísland!

Árið 1946 ákvað 24 ára Dani fara með vini sínum að leita nýrrar framtíðar í Vesturheimi. Á leið sinni vestur um haf stoppuðu þeir á Íslandi til að vinna sér inn aur til ferðalagsins og enduðu í vinnu austur á Kirkjubæjarklaustri. Vinurinn hélt för sinni áfram einhverju síðar, en ungi Daninn fór ekki lengra. Ein af heimasætunum í Mörtungu, hún Ólöf, fangaði hjarta hans og Ísland varð hans nýja heimaland.

Hver var hann?

Þessi ungi Dani var afi minn, Johan J. Wolfram. Hann var eldklár þúsundþjalasmiður sem allt vélakyns lék í höndunum á. Hann elskaði að pæla í tölum og útreikningum og orkuframleiðsla var honum ofarlega í sinni. Hann kom meðal annars að smíði heimarafstöðvar í Mörtungu og ófá tækin smíðaði hann eflaust yfir áratugina sem hann dvaldi sumarlangt á Skeiðarársandi með ævintýramönnunum Bergi Lárussyni frá Klaustri, Kristni í Björgun og fleiri félögum að leita að gullskipinu Het Wapen Van Amsterdam! Jói danski var hann kallaður á sandinum.

Afi var meðalmaður á hæð, grannvaxinn með dökkt og þykkt hár og dökkar augabrúnir. Hárið var enn dökksprengt og augabrúninar fullar af lit þegar hann lést, 96 ára gamall. Kímnisblik í auga og svarta alpahúfan, aðeins út á hlið, ásamt dönsku íslenskunni sem var ekki á allra færi að skilja, voru hans aðalsmerki. Ég fullyrði að íslenskt samfélag græddi mikið á að afi ákvað að setjast hér að – og fékk tækifæri til þess.

Fjölbreyttara og öflugra samfélag

Það sama gildir um aðra erlenda ríkisborgara sem í gegnum áratugina hafa sest að á Íslandi. Án þeirra væri ekki sama virkni í hagkerfinu, ferðaþjónustan gengi til að mynda ekki upp og mörg önnur störf væru ómönnuð. Velsældin væri minni hér, menningin væri fátækari, matarvenjur landans fábreyttari, já og dna-ið okkar mun einsleitara.

Við í Suðurkjördæmi erum sérstaklega rík af alþjóðlegum fjölbreytileika. Sem dæmi má nefna að 1. des sl. voru 23,4% íbúa Suðurnesja og 14,5% íbúa Suðurlands með erlent ríkisfang. Tæplega 50% íbúa Mýrdalshrepps voru af erlendu bergi brotin og ríflega 30% íbúa Skaftárhrepps. Það er mikið ríkidæmi og skiptir kjördæmið afar miklu máli hvað varðar framtíðaruppbyggingu nýrra tækifæra innan þess.

Við eigum að taka nýjum íbúum landsins opnum örmum og við þurfum að gera eins vel og hægt er fyrir fólk sem vill setjast hér að og byggja og auðga íslenskt samfélag til framtíðar. Fólk er fólk, alveg sama hvar það fæðist inn í þennan heim og aukinn fjölbreytileiki gerir okkur bara öflugri.

Höfundur býr á Gömlu Borg í Grímsnesi og skipar 2. sæti á framboðslista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.