Bæjarhátíð Sveitarfélagsins Ölfuss, Hamingjunni við hafið, hefur verið frestað um óákveðinn tíma í ljósi núgildandi sóttvarnareglna. Stefnt er að því að halda hátíðina síðar á þessu ári þegar betur viðrar, covidlega séð. Mikil tilhlökkun var fyrir hátíðinni sem var sérlega glæsileg þetta árið vegna 70 ára afmælis þéttbýlis í Þorlákshöfn sem verið er að fagna á þessu ári. Því er það sérlega súrt að geta ekki haldið Hamingjuna annað árið í röð en mikill vilji er fyrir því að halda hátíðina síðar á árinu, þó dagskráliður eins og stórtónleikarnir sem áttu að vera í Skrúðgarðinum færist að öllum líkindum inn í hús. Á stórtónleikunum áttu að koma fram hljómsveitin Albatross ásamt Jónasi Sig, Röggu Gísla og Sölku Sól, Lúðrasveit Þorlákshafnar og Fjallabræðrum ásamt fullt af fleiri góðum gestum.
Ný dagsetning fyrir Hamingjuna við hafið verður tilkynnt síðar á facebook síðunni Hamingjan við hafið og á olfus.is