Fyrirtækið Kambagil ehf. óskaði eftir leyfi til þess að setja upp tvær svo kallaðar sviflínur (e. zipline) auk útsýnispalls við Svartagljúfur. Í fundargerð bæjarráðs Hveragerðisbæjar kemur fram að Bæjarráð fagni hugmyndunum sem fram koma í erindinu og telji að þær geti orðið mikið aðdráttarafl í bæjarfélaginu. Bæjarráð samþykkir að fela Skipulags- og mannvirkjanefnd að vinna að nauðsynlegu skipulagi í samræmi við skipulagslýsingu sem fylgdi með erindinu svo hugmyndin geti orðið að veruleika fyrir sumarið 2022. Bæjarráð telur jafnframt rétt að fela bæjarstjóra að gera drög að samningi við fyrirtækið varðandi umsvif þess á þessum stað og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar þegar skipulagsvinnan er komin á rekspöl.
Svífa yfir Svartafoss og enda í Reykjadal
Hugmyndin er sú að fólk fari í rólur uppi við útsýnispall sem verður skammt frá þjóðveginum í Kömbunum. Þar renni það niður Svartagljúfur, yfir foss sem þar fellur og áfram niður gljúfrið og endi niðri í Reykjadal, nærri nýju bílastæði og veitingaaðstöðu sem nú hefur verið reist þar.