3.9 C
Selfoss

„Ég kom hér síðast sem tónskáld fyrir 29 árum síðan”

Vinsælast

Haukur Tómasson er annað tveggja staðartónskálda á Sumartónleikum í Skálholti í ár. Staðartónskáldin eru fulltrúar tveggja kynslóða en þema hátíðarinnar í ár er „kynslóðir”. Eygló Höskuldsdóttir Viborg er fulltrúi framtíðarkynslóðar tónskálda. Haukur er hins vegar flestum unnendum nútímatónlistar kunnugur en hann hefur unnið til stórra verðlauna fyrir tónsmíðar sínar, til að mynda vann hann tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 fyrir óperuna Fjórði söngur Guðrúnar. Hann hefur hins vegar ekki áður verið staðartónskáld á Sumartónleikum.

Sumartónleikar hófust nú 1. júlí en þá voru fluttir strengjakvartettar eftir bæði Hauk og Eygló. Sumartónleikum lýkur nú 11. júlí og verða þá fjögur ný verk frumflutt eftir bæði, tvö eftir hvort. Á þeim degi fyrir 29 árum var hinsvegar frumflutt kammerverkið Spírall eftir Hauk af Caput á Sumartónleikum í Skálholti. Það ár var Oliver Kentish staðartónskáld. Þetta er oft raunin, þó nokkrir frumflutningar eiga sér stað á Sumartónleikum. Nú í sumar voru og verða einnig frumflutt verk eftir Huga Guðmundsson og Báru Grímsdóttur. Fyrir 29 árum var Haukur tiltölulega nýkominn heim úr námi frá Kaliforníu en nú er Eygló tiltölulega nýkomin heim úr námi frá New York. Fortíð og nútíð tala saman í Skálholti þar sem ný og gömul tónlist fá að hljóma í þessari fallegu kirkju á þessum magnaða stað sem geymir 1000 ár af sögu og menningu.

Verkin sem verða frumflutt á lokatónleikunum eru fyrir dúett skipaðan orgelleikara og harmóníkuleikara annars vegar og hins vegar mæðgnadúett skipaðan fiðlu og víólu. Það verður spennandi að heyra verkin á æfingum nú í vikunni en nú dvelja flytjendur í Skálholti við æfingar. Haukur og Eygló hafa bæði talað um ólíka eiginleika og stöðu orgelsins og harmóníkunnar sem þau nýttu sér sem innblástur við tónsmíðarnar. Það er hið andlega orgel og hin veraldlega nikka. Einnig varð mæðgnadúettinn þeim að yrkisefni í verkinu fyrir mæðgurnar, Dúó Freyju. Þau fjalla bæði um samband eða tengsl mæðgna. Í þessum verkum kemur þema hátíðarinnar skýrt fram þar sem við teflum saman ólíkum kynslóðum flytjenda sem svo verður tónskáldunum innblástur. Allt fléttast saman, kynslóðirnar, tónlistin, fólkið og ólíkir straumar og stefnur.

Nú er seinni tónleikavikan að ganga í garð og verða fyrstu tónleikar vikunnar á fimmtudaginn 8. júlí. Dúó Freyja flytja þá sex nýleg verk sem voru samin sérstaklega fyrir þær. Á laugardaginn flytur Ásta Soffía harmóníkuleikari barokktónlist og Hljómeyki flytur undir stjórn Hreiðars Inga verk eftir Bach, Cecilia McDowall og nýtt verk eftir Báru Grímsdóttur. Í messu sunnudaginn 11. júlí kemur Hljómeyki einnig fram og flytur m.a. verk eftir Hreiðar Inga sem var frumflutt af sama kór fyrir 20 árum síðan. Sama dag fer fram tónskáldaspjall þar sem staðartónskáldin segja frá nýjum verkum sínum og að lokum fara fram lokatónleikar hátíðarinnar þar sem nýju verkin verða verkin frumflutt af Dúó Freyju, Ástu Soffíu og Guðnýju Einarsdóttur.

Hér má sjá dagskrá:

Dúó Freyja: Sex verk
8. júlí kl. 20:00

Ásta Soffía: Barrokktónlist leikin á harmóníku
10. júlí kl. 14:00

Tónleikaspjall: Hljómeyki
10. júlí kl. 16:15

Hljómeyki: Cantate Domino
10. júlí kl. 17:00

Messa: Hljómeyki
11. júlí kl. 11

Tónskáldaspjall: Haukur og Eygló
11. júlí kl. 16:15

Lokatónleikar: Haukur og Eygló
11. júlí kl. 17:00

Nýjar fréttir