-7 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað er að gerast í húsnæðismálum og hvert stefnir?

Hvað er að gerast í húsnæðismálum og hvert stefnir?

Hvað er að gerast í húsnæðismálum og hvert stefnir?
Mynd: freepik.com
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir.

Fasteignamarkaðurinn hefur náð ævintýralegum hæðum nýverið og virðist ekki sjá fyrir endann á því. Húsnæðisverð hefur hækkað um tugi prósenta á síðustu árum og leiguverð fylgt þar hratt á eftir. Þetta er nokkuð kunnuglegt ástand og rifjar upp “góðæris árin” og eftirmála þeirra.  En hvað er í raun og veru í gangi á hinum íslenska húsnæðismarkaði?

Framboð á húsnæði, hvort heldur er að kaupa eða leigja er langt undir eftirspurn og er markaðurinn orðinn “galinn” í verðmyndun sem setur stóran hóp af fólki á hálfgerðan vergang og veldur miklum ójöfnuði þegar kemur að getu til kaupa eða leigu húsnæðis.

Það er furðulegt að horfa upp á þetta ástand á meðan miklar breytingar ganga yfir þjóðfélagið á öðrum sviðum og þykja sjálfsagðar. Hvernig má það vera að samfélagið geti ekki tryggt fólki öruggt þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði? Hvernig getur almenningur sætt sig við að neyðarástand sé normið í málaflokki sem er algjör grundvöllur þess að fólki líði vel og að komandi kynslóðir alist upp í öruggu og heilnæmu umhverfi?

Félagsmenn Bárunnar hefur ekki farið varhluta af viðbrögðum við þeim vírusfaraldri sem enn er í gangi en sér nú vonandi fyrir endann á. Atvinnuleysi hjá félagsmönnum hefur mælst upp í 20% . Svæðið hér er viðkvæmt og þar sem ferðaþjónustan hafði vaxið mjög þá bítur þetta meira en ella. Hlutfall félagsmanna í ferðaþjónustu var komið í 40% áður en covid skall á. Það voru svolítið sláandi niðurstöður úr könnun sem Varða rannsóknarstofa vinnumarkaðarins gerði á dögunum varðandi þetta svæði hér. Yfir 30% þeirra sem svörruðu átti erfitt með að ná endum saman, fjárhagsstaða Bárukarla almennt verri en í öðrum félögum og hlutfall innflytjanda hærra.  Niðurstöður þessar kalla á frekari skoðun á stöðu okkar félagsmanna. Þegar verður atvinnuleysi og félagsmenn fara að fá tekjutengdar bætur og fara svo á grunnbætur verður staðan mjög slæm. Atvinnusvæðið hefur haft orð á sér fyrir að vera láglaunasvæði og ekki síður þess vegna þarf að fá fjölbreyttari störf, atvinnurekendur þurfa að sýna metnað gagnvart starfsfólki sem skilar sér í hærri launum. Þetta er áskorun og samvinna allra sem hlut eiga að máli til framtíðar. Huga þarf að heildarhagsmunum ekki sérhagsmunum. Verðmætin liggja í þeim sem störfunum sinnaþ

Það er nauðsynlegt að húsnæðiskreppan komist á dagskrá í baráttunni fyrir þingkosningarnar í haust.

Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni vitum að öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum er forsenda velferðar og hamingjuríks fjölskyldulífs. Við höfum séð það aftur og aftur í gegnum árin. Við vitum líka hvernig það getur étið fólk upp í angist og kvíða að fá ekki notið öruggs húsnæðis á viðráðanlegum kjörum.

Húsnæðismálin eiga ekki að vera einkamál hins „frjálsa“ markaðar. Það hefur sýnt sig að hann ræður ekki við það verkefni að tryggja öllum þak yfir höfuðið. Núverandi húsnæðiskreppa verður ekki leyst nema með kröftugri aðkomu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Og málið þolir enga bið.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,
formaður Bárunnar, stéttarfélags.