-4.5 C
Selfoss

Bætt umferðaröryggi við Austurveg á Selfossi

Vinsælast

Ónýtt kerfi

Ég borga glaður skatta

Jólabasar á Eyrarbakka

Lyftistöng fyrir samfélagið

Í mars sl. greindi blaðið frá því þegar barn var sett í hættu vegna framúraksturs við gangbraut á Austurvegi á Selfossi. Vegurinn er frekar breiður og gefur fólki tækifæri á að gera einhverjar kúnstir, en ökumaðurinn tók hægra megin fram úr ökutæki sem stöðvað hafði fyrir gangandi veg­faranda. Ábendingar bárust til blaðsins frá íbúum vegna málsins og samfélagsmiðlar loguðu. Blaðið ræddi við íbúa sem lýstu áhyggjum sínum af ástandi mála.

Vegurinn þrengdur við gangbrautir

Vegagerðin hefur nú brugðist við vegna málsins og hefur sett þrengingar við gangbrautir sem þvera veginn og með því gert næsta ómögulegt fyrir ökumenn að fara fram úr á meðan gang­andi vegfarendum er hleypt yfir. „Þetta er heilmikil bragarbót og þakkarvert að Vegagerðin hafi hlaupið til og kippt þessu í liðinn sem fyrst. Þetta bætir umferðaröryggi þeirra sem eru gangandi eða hjólandi. Nú stendur eftir að við ökumenn þurfum, eftir sem áður, að huga að bættri umferðarmenningu,“ segir Kristinn M. Bárðarson, ökukennari á Selfossi um málið.

Breytingar á veginum við tilfærslu á þjóðveginum

Þegar nýja brúin kemur og þjóðvegurinn færist í nýtt vegstæði ofan við bæinn mun sveitarfélagið taka við veginum af hendi Vegagerðarinnar. Þá er líklegt að einhverjar breytingar verði gerðar á vegstæðinu og það aðlagað enn frekar að þörfum sveitarfélagsins. Við heyrðum í Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjar­stjóra Árborgar vegna mál­sins og spurðum hvort eitt­hvað væri farið að velta þeim málum upp og hvers íbúar megi vænta með veginn. „Það er ekki neitt komið á borðið í þessum efnum. Þó er frá því að segja að í skipulagsvinnu sveitarfélagsins hefur verið lögð á það mikil áhersla að vegurinn verði aðlagaður að þörfum samfélagsins hér í Árborg. Hér mun verða mannvænt breiðstræti í takt við það samfélag sem hér býr og er í þróun,“ segir Gísli Halldór í samtali við Dagskrána.

Nýjar fréttir