-5.5 C
Selfoss

Þrjátíu og einn teknir fyrir of hraðan akstur og einn stútur undir stýri

Vinsælast

Í dagbók Lögreglunnar á Suðurlandi kennir að venju ýmissa grasa.

Ekið var á ær með lamb á Suðurlandsvegi, skammt frá Jökulsárlóni og drápust bæði dýrin. Bifreiðinni sem ók á búfénaðinn var ekið af vettvangi án þess að tilkynnt væri um slysið. Á það er bent að búfénaður sé kominn á kreik og ökumenn beðnir að taka það með í reikninginn, þar sem von er á slíku.

Þá voru 31 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur og vænta þess að greiða sektir. Einn þeirra reyndist réttindalaus á 130 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90. Sá var stoppaður á Mýrdalssandi. Þá var ungur ökumaður með bráðabirgðaskírteini gert að sæta akstursbanni en hann fór yfir leyfilegan hámarksfjölda punkta sem eru fjórir punktar. Sá verður að sita sérstakt námskeið áður en hann fær leyfi til aksturs á ný, en líklegt er að sekt hafi fylgt með í kaupbæti.

Farsímanotkun án handfráls búnaðar er enn til vansa en fjórir fengu sekt vegna notkunar á farsíma undir stýri á og við Selfoss.

Eftirlit með þungum ökutækjum hafa farið um með hemlaprófara við vegaskoðanir stórra ökutækja. Á Suðurlandi voru skráðar sex vegaskoðanir en í tveimur tilfellum var tilefni til athugasemda.

Upp kom heimilisofbeldismál í sumarhúsi í Uppsveitum Árnessýslu. Málið er til rannsóknar og úrvinnslu í samstarfi við barnaverndaryfirvöld í heimahéraði viðkomandi fjölskyldu.

Þá féll hestamaður af hesti sínum við flugvöllinn á Hellu. Sá hringdi sjálfur eftir hjálp og var eitthvað meiddur að sögn og fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Sama dag féll maður á hlaupahjóli á Selfossi við Eyraveg. Hann er með höfuðáverka og missti meðvitund um stund. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Þá var einn ökumaður grunaður um ölvunarakstur. Sá svaf úr sér í fangageymslum þar til unnt var að taka af viðkomandi skýrslu. Sá hafði velt bifreið sinni út af Suðurlandsvegi við Kálfholtsveg.

Nýjar fréttir