Þórður Tómasson rithöfundur og fyrrverandi safnvörður Byggðasafnsins í Skógum í Rangárþingi eystra fagnar 100 ára afmæli sínu þann 28. apríl 2021
Þórður átti veg og vanda að uppbyggingu þessa stærsta byggðasafns á Íslandi sem hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal innlendra sem erlendra gesta í áraraðir og er ekkert lát þar á. Þórður tók persónulega á móti gestum byggðasafnsins með orgelspili, söng og sagnalist í áraraðir.
Þórður hefur einnig verið gríðarlega ötull í útgáfumálum í gegnum árin og skrifað fjölda bóka um þjóðhætti, minja- og safnamál. Nú í tilefni aldarafmælis síns gefur hann út bókina Stóraborg, staður mannlífs og menningar sem á án efa eftir að gleðja margann lesandann.
Þórður er við góða heilsu og hefur frá mörgu að segja og er minni hans hvergi brigðult. Á meðfylgjandi mynd má sjá Lilju Einarsdóttur sveitarstjóra Rangárþings eystra færa Þórði Tómassyni virðingarvott fyrir ómetanlegt framlag hans til menningar í sveitarfélaginu í áratugi. Móttökurnar voru ekki síðri en á safninu í tíð Þórðar þar sem hann hafði frá miklu að segja heima í stofu í blíðunni undir Eyjafjöllum á afmælisdaginn.