-6.1 C
Selfoss

Orsök dauða 50 gæsa óþekkt

Vinsælast

Um 50 heiðagæsir fundust dauðar við Hvalnes í Lóni og í Suðurfjörum. Orsök dauða þeirra er óþekkt. Ekki var nægilegt hold á fuglshræjunum til skimunar fyrir fuglaflensu við komu eftirlitsmanns Matvælastofnunar.

Matvælastofnun barst tilkynning um fugladauðann frá Náttúrustofu Suðausturlands um helgina. Þegar eftirlitsmaður stofnunarinnar kom á staðinn á mánudag voru hræin upp étin þannig að ekki var hægt að taka sýni til rannsóknar á fuglaflensu. Stofnunin hefur verið í sambandi við heimamenn og verða sýni tekin ef fleiri fuglar finnast dauðir.

Vegna fuglaflensufaraldurs sem nú geisar í Evrópu er mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningu um dauða fugla þegar orsök dauða þeirra er ekki augljós, svo sem þegar fuglarnir hafa flogið á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla.  Þau afbrigði fuglaflensuveiru sem nú herja á fugla í Evrópu eru ekki bráðsmitandi fyrir fólk en þó er ráðlegt að gæta almennra smitvarna, snerta ekki dauða fugla með berum höndum og tilkynna tafarlaust um fundinn.

Veiran getur valdið miklum búsifjum hjá alifuglaeigendum og leitt til niðurskurðar á öllum fuglum.

Nýjar fréttir