Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu var stofnað 1993. Félagssvæðið nær yfir alla sýsluna, þ.e. Ásahrepp, Rangárþing ytra og Rangárþing eystra. Aðal hvatamaður að stofnun fálagsins og fyrsti formaður þess til margra ára var Ólafur Ólafsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri Kf. Rangæinga á Hvolsvelli. Ólafur á þakkir skyldar fyrir frumkvöðlastarf í þágu eldri borgara í sýslunni, ásamt öðru góðu fólki,sem stóð með honum að starfinu fyrstu árin. Skráðir félagar eru rúmlega 250.
Enn starfar félagið af krafti, og hefst vetrarstarfið í byrjun október ár hvert. Almennt handverk er tvisvar í viku og í Menningarsalnum á Hellu. Útskurður í tré er einu sinni í viku, var í Njálsbúð, en er núna í smíðastofu Hvolsskóla. Boccia er einu sinni í viku bæði á Hellu og Hvolsvelli. Spilað er á spil alla fimmtudaga, til skiptis á Hellu og Hvolsvelli. Boðið er upp á göngu í íþróttahúsunum á Hellu og Hvolsvelli og leikfimi á Hvolsvelli. Hringur, kór eldri borgara, starfar af krafti og æfir einu sinni í viku á Hellu.
Við förum á jólahlaðborð og yfirleitt á eina leiksýningu á vetri, ýmist innan héraðs eða til Reykjavíkur. Auk þessa höfum við haldið fræðslufundi um ýmis málefni, nú síðast 18. apríl sl. um nýju tryggingalöggjöfina og Sjúkratryggingar Íslands. Vetrarstarfinu líkur svo með handverkssýningu, sem var að þessu sinni í Hvoli 29. og 30. apríl sl. og var glæsileg að vanda.
Yfir sumartímann er boðið upp á sundleikfimi bæði á Hellu og Hvolsvelli. Við höfum fengið aðstöðu á Strandarvelli og stundum þar „pútt“ á þriðjudögum frá miðjum maí og fram í miðjan september. Einnig er farið í þrjár ferðir yfir sumarið, dagsferð í júní og ágúst, og þriggja til fjögurra daga ferð í júlí. Þátttaka hefur yfirleitt verið góð í þessum ferðum. Svo ljúkum við hringnum með árshátíð í lok september.
Kjararáð er starfandi hjá félaginu. Formaður þess er Halldór Gunnarsson, sem er ötull baráttumaður fyrir bættum kjörum okkar eldri borgara. Ekki veitir af. Allar þessar skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar til ellilífeyrisþega eru óþolandi. Hver króna sem lífeyrisþegi fær, umfram 25.000 kr. frítekjumarkið, kallar á skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun um 45%, hvort sem um er að ræða atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur. Á sama tíma eru stjórnvöld að hvetja lífeyrisþega til atvinnuþátttöku og sjálfsbjargar. Þetta fyrirkomulag er ekki sérlega atvinnu hvetjandi. Það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera.
Við erum einnig með Öldungaráð sem var formlega stofnað 2015 og er eiginlega enn í mótun. Nýlega er búið að samþykkja nýjar reglur fyrir öldungaráðið og færa þær nær því sem gerist annars staðar. Hvað sem öllum reglugerðum líður tel ég að hugsunin á bak við stofnun öldungaráða sé sú sama, að bæta og stitta boðleiðir milli eldri borgara og viðkomandi sveitastjórna. Við væntum auðvitað góðs af störfum beggja þessara ráða.
Ég vil að lokum geta þess að sveitarfélögin hér í Rangárþingi þ.e. Ásahreppur, Rangáring ytra og Rangárþing eystra, hafa verið félaginu ákaflega velviljuð og Héraðsnefnd Rangæinga hefur styrkt okkur mjög rausnarlega með fjárframlögum, sem gerir okkur kleift að vera með framkvæmdastjóra í hlutastarfi, á launum, og halda úti því öfluga starfi, sem raun ber vitni og er það hér með þakkað.
Einnig vil ég þakka leiðbeinendum handverks, sem og öllum öðrum,sem hafa starfað fyrir og með félagi eldri borgara, ykkar framlag er ómetanlegt.
Með ósk og von um að sumarið verði okkur öllum gott og gjöfult. Sól á himni og sól í sinni. Gleðilegt sumar.
Guðrún Aradóttir, formaður Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.