-7.3 C
Selfoss

Eru samtök eldri borgara ráðalaus?

Vinsælast

Forysta Landssambands eldri borgara virðist ráðalaus gagnvart skerðingarákvæðum á greiðslum almannatrygginga (TR) undanfarin mörg ár. Langur sjónvarpsþáttur nýverið um velferð aldraðra fjallaði ekkert um kjaramálin, en forsætisráðherra vék í ávarpi sínu þar að þeim lagfæringum sem ríkistjórn hennar hefði stuðlað að með sérstökum lögum um bætur til þeirra sem lítinn eða engan stuðning hefðu fengið, líklega um 800 manns.  Stuðningurinn hefði getað numið kr. 129. 310 til hjóna eða sambúðarfólks á mánuði og kr. 170. 784 til einstaklinga með heimilisuppbót eftir að hafa greitt skatt af greiðslunum. En hindranir og flækjustig laganna voru með þeim ólíkindum, að í upphafi árs höfðu aðeins 141 einstaklingur sótt um !

Leiðrétting á skerðingum greiðslna frá TR vegna vinnulauna

Talið hefur verið að það myndi kosta ríkissjóð um 2 milljarða króna ef 45% skerðing vegna vinnulauna umfram kr. 100 þúsund á mánuði yrði afnumin. Ekki er reiknaður með í því dæmi virðisaukinn af aukinni veltu fólksins, sem myndi koma til vinnu og ekki heldur lífsbati þeirra sem hafa kosið að sitja heima fullfrísk, fremur en að láta hirða af sér um 80% af því sem unnið yrði umfram þau laun. Ef þetta væri reiknað með tel ég að afnám skerðinganna myndi ekki kosta ríkisjóð neitt. Heldur hitt, að ríkissjóður myndi hagnast vegna aukinna tekna sem yrðu skattlagðar, ásamt veltu af virðisauka.

Leiðrétting á greiðslum frá TR vegna lífeyrissjóðsgreiðslna

Skerðingarákvæði laga um almannatryggingar vegna lífeyrissjóðsgreiðslna eru taldar spara ríkissjóði um 26 milljarða króna.

Greiðslur sem eldri borgarar fá úr lífeyrissjóði eru af TR meðhöndlaðar sem fjármagnstekjur, og séu þær umfram kr 25 þúsund á mánuði, þá skerðast greiðslur frá TR um  45 %.

Ef lífeyrisgreiðslurnar væru hins vegar taldar launatekjur væru þær ekki skertar fyrr en við 100 þús króna markið. Í skattalaögum eru lífeyrigreiðslur þó skilgreindar sem laun og skattlagðar með miklu hærra hlutfalli en ef þær væru fjármagnstekjur . Í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 er kveðið á um það í 2. gr., í 9. og 10. tl. að ekki sé mismunur á atvinnutekjum og atvinnutengdum lífeyrissjóðsgreiðslum.

Auk þessa eru lífeyrissjóðstekjur skattlagðar tvisvar, gagnvart þeim sem greiddu skatt af greiðslum í lífeyrissjóð frá 1969 til 1988, en eru nú skattlagðir á ný af sama stofni fjármagns.

Leiðrétting á árlegum hækkunum bóta almannatrygginga

Þessi hækkun er framkvæmd einu sinni á ári, fyrsta janúar. Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um að bætur “skuli  breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.” Út frá þessari lagagrein kemst ríkistjórn árlega að þeirri niðurstöðu að miða við fjárlög, en ekki 69. greinina. Þannig lækkar í raun árlegt framlag ríkisjóðs til þessara greiðslna, miðað við verðlag og launaþróun í landinu.

Viðhorf þeirra sem ráða

Þeir segja: Aldrei hefur meira verið gert fyrir aldraða, eins og t.d. svar fjármálaráðherra við nýlegri fyrirspurn, sem birtist í Kjarnanum:  „Í fyrsta lagi hafa kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna af þeim sem fá bætur frá almannatryggingum batnað hraðast á undanförnum árum. Kjör þeirra hafa batnað hraðar en þeirra sem hafa meira á milli handanna en þiggja þó eitthvað úr almannatryggingakerfinu.”

Hvernig skyldi ráðherrann svara þeirri einföldu spurningu, að íslenska ríkið greiði hlutfallslega lægst allra þjóða innan OECD til eldri borgara gegnum TR?

Síðan segir ráðherrann að Íslendingar eigi að vera stoltir af öflugu almannatryggingakerfi. Eigum við að vera stolt af því að ríkið hirði af eldri borgurum árlega um 26 milljarða vegna skerðinga á greiðslum TR til þeirra, vegna áunninna lífeyrissjóðsgreiðslna þeirra sjálfra?

Hvað gætu eldri borgarar gert til að ná fram leiðréttingu?

Forysta LEB gæti  lagt fram tillögur til ríkisstjórnar um lágmarkslagfæringu á kjörum eldri borgara, sem næðu til þeirra sem verst eru settir í samræmi við samþykkt landsfundar um kjaramál frá 30.6.2020. Ef engin viðbrögð yrðu við því fyrir  landsfund LEB á þessu ári, yrði að mínu áliti að leggja fyrir fundinn tillögu um að félög eldri borgara um land allt, stæðu saman að framboði undir nýrri forystu stjórnar LEB. Það gæti verið sjálfstætt framboð eða með samstarfi við annan flokk með skriflegum skuldbindingum stjórnar þess flokks um stefnu í þessum  málaflokki og þátttöku í framboði, skilyrt aðeins til þátttöku á næsta þingi. Ef sérstakur flokkur eldri borgara næði kjöri til alþingis, myndu þessi mál njóta forgangs hjá flokknum, ásamt því að styðja önnur góð mál til heilla fyrir land og þjóð.

Halldór Gunnarsson, formaður  kjararáðs félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.

Nýjar fréttir