-4.3 C
Selfoss

Ein glæsilegasta mathöll landsins í Mjólkurbúinu

Vinsælast

Endurbyggt Mjólkurbú Flóamanna sem nú er risið í nýja miðbænum verður sannkallað matarmenningarhús. Þar verður mathöll með átta nýjum veitingastöðum, tveir barir og sýning um skyr í kjallara. Óhætt er að segja að ásýndarmyndir gefi góð fyrirheit en Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags, segir að um afar metnaðarfullt verkefni sé að ræða.

„Mjólkurbúið er afar glæsilegt hús og höfum frá fyrsta degi lagt áherslu á að það yrði samkomustaður fyrir heimamenn jafnt sem gesti. Í Mjólkurbúinu getur öll fjölskyldan komið saman og ég fullyrði að allir muni geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þarna verða neapolitan pizzur, hamborgarar, taco, pasta og fleira. Sjö af átta veitingabásum hefur þegar verið ráðstafað og nöfnin á þessum stöðum verða gerð kunnug mjög fljótlega. Þetta eru bæði ný vörumerki og önnur sem fólk kannast vel við,“ segir Vignir. „Síðasta lausa bilið er það stærsta í húsinu og á besta stað. Ef einhverjir heimamenn með reynslu af veitingarekstri vilja láta ljós sitt skína skorum við  viðkomandi að hafa samband.

Upplifun að koma inn í húsið

Hálfdán Pedersen sér um innanhúshönnun, en hann hefur meðal annars séð um útlit þekktra staða á borð við Sumac, Snaps, Þjóðleikhúsið, Kex, Kjarvalsstofu og fleira.

„Stíllinn byggir á sögunni og hver hæð og hvert rými í húsinu hefur sinn karakter. Á jarðhæð verður til dæmis ákveðinn hráleiki í hávegum hafður, útlit sem sem dregur daum af gömlum verksmiðjum og flísar eru áberandi. Upp í risi er svo meiri hlýja og nánd, sem hæfir vel þeim vín- og píanóbar sem þar verður, með útsýni að Ingólfsfjalli öðru megin og yfir Brúartorgið nýja hinum megin. Algjörlega magnaður staður,“ segir Vignir.

Mjólkurbúið er engin smásmíði. Það telur um 1.500 fermetra og hefur sæti fyrir 300 manns auk útisvæðis á Brúartorginu nýja. Húsið mun opna dyrnar fyrir gestum og gangandi í júní og er Vignir bjartsýnn á komandi tíma. „Að sjálfsögðu vonumst við til að fá góðar viðtökur hjá heimamönnum og hér er svo stöðugur straumur sumarbústaðafólks og höfuðborgarbúa að sækja sér uppliftingu. Það styttist í erlendu ferðamennina og við sjáum mikil tækifæri á þeim vettvangi. Selfoss er í miðju helsta ferðamannasvæðis landsins og skemmtileg matarupplifun verður sífellt stærri hluti ferðamennsku.“

Skyrland opnar eftir tveggja ára undirbúning og auglýsir eftir rekstrarstjóra

Í kjallara Mjólkurbúsins verður að finna sýningu sem fengið hefur nafnið Skyrland. Um er að ræða samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar og Sigtúns Þróunarfélags sem hefur verið í undirbúningi í tvö ár og er stefnt að opnun hennar í júní nk. „Þetta er sýning sem fjallar um skyr, þennan hálfgerða þjóðarrétt Íslendinga, sem nú er í mikill útrás um allan heim. En þó að skyrið sé í forgrunni þá er þetta líka sýning um matarmenningu- og hefðir Íslendinga og við höfum mikla sannfæringu fyrir því að þessi sýning muni njóta vinsælda á meðal erlendra ferðamanna,“ segir Vignir.

Stór hluti upplifunarinnar snýst um að gefa gestum sýningarinnar tækifæri á að smakka skyr. „Samhliða sýningunni verður starfræktur veitingastaður sem býður upp á skyr, skálar, boozt og þess háttar vörur og mun um leið sjá gestum sýningarinnar fyrir veitingum og smakki.“

Skyrland auglýsir nú eftir rekstrarstjóra og segir Vignir að sú eða sá sem ráðinn verður muni taka virkan þátt í áframhaldandi þróun rekstursins. „Viðkomandi mun móta vöru- og þjónustuframboðið með eigendum og hafa heilmikil áhrif hvernig vörumerkið þróast. Við leggjum mikla áherslu að um sé að ræða heimamann sem búsettur er á Selfossi eða nærsveitum.“

 

Nýjar fréttir