-6.6 C
Selfoss

Systrafoss og Öræfajökull gleðja augað

Vinsælast

Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri, og skrifstofa Skaftárhrepps eru fluttar í nýuppgert húsnæði sem áður hýsti íbúðir fyrir kennara og heimavist grunnskólans á  Kirkjubæjarklaustri. Húsnæðið er á Klausturvegi 4 á annarri hæð og mun hér eftir verða kallað Kirkjubæjarstofa. Á Kirkjubæjarstofu verður aðstaða til kennslu, námsver og lesstofa fyrir nemendur í fjarnámi og þar er hægt að leigja vinnuaðstöðu og fundarsal. Mikið útsýni einkennir nýja húsnæðið þar sem Systrastapi, Systrafoss og skógurinn eru á aðra hönd en Síðan og Öræfajökull á hina.

Heimavistarálman og kennaraíbúðirnar eru frá því 1970 en þann vetur komu fyrstu nemendurnir á heimavistina sem var byggð með það í huga að heimavistin væri hótel á sumrin og þannig var fyrirkomulagið fram yfir aldamótin. Nemendur Kirkjubæjarskóla sem áttu lengst að fara voru í heimavist til haustsins1992 en þá var heimavistin lögð niður og öll börn keyrð heim daglega. Tónlistarskóli Skaftárhrepps var á efri heimavistinni eftir 1994 en hann hefur nú fengið rúmgott húsnæðinni í íbúðinni á neðri hæðinni.

Skrifstofur Skaftárhrepps voru á efri hæð félagsheimilisins Kirkjuhvols. Myndir LM.

Skrifstofa Skaftárhrepps er flutt inn á Kirkjubæjarstofu en skrifstofan var áður á efri hæð félagsheimilisins Kirkjuhvols. Er mikill munur á allri starfsaðstöðu starfsfólks sveitarfélagsins en húsnæðið var löngu orðið of þröngt og ófullnægjandi á allan hátt.

Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri, var í gamla gistihúsinu á hlaðinu við Systrafoss frá stofnun hennar 1997. Gamla gistihúsið var selt síðastliðið vor. Það var félagið  Burstasteinn ehf. sem keypti húsið en það hefur ekki verið ákveðið hvaða starfsemi verður í gistihúsinu, en vonandi fréttist af því þegar líður að vori.

Á Kirkjubæjarstofu hafa nokkrar stofnanir starfsstöð; Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændabókhaldið, Fræðslunet Suðurlands-símenntun, Náttúrustofa Suðausturlands, atvinnu- og kynningarfulltrúar Skaftárhrepps og Vatnajökulsþjóðgarður. Verið er að byggja nýja gestastofu fyrir þjóðgarðinn sunnan við Skaftá og þangað munu skrifstofur Vatnajökulsþjóðgarðs flytja þegar þar að kemur.

Útsýnið er stórkostlegt. Myndir LM.

Kirkjubæjarstofa er þekkingarsetur þar sem unnið er að ýmsum verkefnum. Kirkjubæjarstofa fékk Menningarverðlaun Suðurlands 2019 fyrir framlag til metnaðarfullra menningarverkefna. Verkefnin hafa verið ólík en öll tengd náttúru eða menningu. Eitt af stóru verkefnum Kirkjubæjarstofu er skráning örnefna og upp úr því verkefni varð til bókin Fornar ferðaleiðir í Vestur Skaftafellssýslu sem Vera Roth skrifaði og kom út árið 2018. Frá Kötlugosi til fullveldis var framlag Kirkjubæjarstofu til að minnast Kötlugossins og fullveldisins 1. des 2018 og má sjá afraksturinn af því verkefni á vefnum www.katla100.is söfnun ljósmynda og sagna úr sveitinni má sjá á vefnum Eldsveitir.is en það verkefni var að hluta unnið á Kirkjubæjarstofu. Eitt þeirra verkefna sem verið er að vinna núna í samvinnu við aðra Sunnlendinga er skráning þjóðsagna á Suðurlandi á vefinn Sagnirafsudurlandi.is.

Önnur verkefni í vinnslu eru skráning, hnitsetning og kortlagning á vörðum við þjóðleiðir og aðrar fornar ferðaleiðir í Skaftárhreppi, skráning á sögum um skaftfellskar konur og fleira.

Félagið Eldvilji ehf, sem stofnað var árið 2000, var eigandi að gamla gistihúsinu og mun einnig verða eigandi að húsnæði Kirkjubæjastofu á móti Skaftárhreppi. Skaftárhreppur leggur til húsið og Kirkjubæjarstofa leggur til veglega styrkveitingu frá SASS/sóknaráætlun Suðurlands, til að endurnýja húsnæðið, að upphæð kr. 67,500.000 kr. Það kom sér vel á covid tímum að eiga þennan styrk og geta farið í framkvæmdir á sama tíma og hér er atvinna minni en verið hefur undanfarin ár. Eigendur Eldvilja ehf eru Skaftárhreppur og Kirkjubæjarstofa. Skaftárhreppur leggur til bygginguna en Kirkjubæjarstofa styrkinn og er áætlaður eignarhlutur Skaftárhrepps í eignarhaldsfélaginu Eldvilja ehf. 47,5% og Kirkjubæjarstofu 52,5 %. Allnokkur vinna er eftir við að lagfæra húsið að utan.

Endurbæturnar voru viðamiklar og var verkið boðið út. Fékk RR-Tréverk ehf. á Kirkjubæjarklaustri verkið samkvæmt tilboði að upphæð kr. 60,984,603 kr. Nokkrir undirverktakar komu að verkinu og fleiri lögðu hönd á plóg. Húsnæðið er nú eins og nýtt að innan, vandað var til verka og eiga allir sem komu að framkvæmdinni þakkir skyldar.

Það er mikið tilhlökkunarefni fyrir það fólk sem vinnur að uppbyggingu og framfaramálum í Skaftárhreppi að vinna saman í þessu glæsilega húsnæði sem verður án efa suðupottur hugmynda og nýsköpunar til framtíðar.

Texti og ljósmyndir Lilja Magnúsdóttir. Kynningarfulltrúi Skaftárhrepps.

 

 

Nýjar fréttir