-10.3 C
Selfoss

Við erum ekki örfáar tuðandi kellingar!

Vinsælast

Næsta haust stendur til að hefja kennslu í nýjum skóla á Selfossi, Stekkjaskóla, þar sem börn í 1.-4. bekk eiga að hefja nám í færanlegum bráðabirgða- kennslustofum. Töluvert hefur verið fjallað um málið en þó hefur hlið foreldra barnanna sem gert er að færast á milli skóla ekki fengið að heyrast nægjanlega vel. Eins og núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir er börnum sem verða í 2.-4. bekk, búsett eru í nýju skólahverfi Stekkjaskóla og þegar eru í Sunnulækjarskóla eða Vallaskóla gert að færast um skóla. Þessi yfirfærsla er án alls samráðs og kynningar fyrir foreldra.
Í fyrsta lagi er ljóst að Sveitarfélagið Árborg hefur ekki farið að lögum við töku ákvörðunarinnar. Máls­með­ferðar­reglur stjórnsýslulaga eru hafðar að vettugi og ekkert sam­ráð haft við foreldra. Undir­rituð hefur lagt fram kæru hjá Mennta- og menn­ingar­mála­ráðuneytinu þar sem þess er krafist að ákvörðunin um að flytja börn sem þegar eru í öðrum skólum og án aðkomu foreldra verði felld úr gildi. Gera verður þær lágmarkskröfur til sveitarfélagsins að þeir virði lög og reglur sem gilda og stundi góða stjórnsýslu.
Í öðru lagi þá er öryggi barnanna okkar haft að vettugi. Bráðabirgðakennslustofur verða staðsettar á byggingarsvæði þar sem unnið verður að byggingu varanlegs skólahúsnæðis. Aug­ljóst er að mikið verður um umferð vinnuvéla þar sem uppbygging í nýju hverfi er rétt hafinn, en í dag hafa risið þar fjögur hús. Vinnusvæði og börn eiga enga samleið þrátt fyrir að reynt verði að passa upp á öryggi. Forvitin og uppátækjasöm börn láta ekki járngirðingar stöðva sig. Þá er ótalin umferð um Suðurhólana, en hluti barnanna þarf að fara yfir þá götu til þess að komast í skólann. Þeir sem eru búsettir í götum sem liggja að Suðurhólunum vita að mikill hraði er á bílum sem ekið er Suðurhólana og hámarkshraði í fæstum tilfellum virtur. Engin undirgöng eru til staðar né gönguljós sem tryggja að ekki verði stórslys. Líf barnanna okkar er að veði.
Í þriðja lagi er brotið á rétti barnanna okkar. Börn sem þegar stunda nám í Sunnulækjarskóla eða Vallaskóla eiga rétt á því að fá að halda áfram námi í þeim skóla sem þau voru í, með skólasystkinum og í því skólaumhverfi sem þau hafa vanist frá upphafi skólagöngu. Nú á að taka þau upp, flytja um skóla og keyra þau fram og til baka í sund, íþróttir og frístundaheimili. Börn sem þegar voru í Sunnulækjarskóla þurfa ekki einungis að skipta um skóla heldur einnig frístundaheimili þar sem frístundaheimilið Bifröst sem tengist Vallaskóla þjónustar Stekkjaskóla. Börnin okkar standa eftir mörg hver án vina, í stanslausum akstri til og frá skóla og í nýju umhverfi. Vissulega heimila reglurnar að sótt verði um undanþága til þess að barn fái að vera í skóla utan skólahverfis en í þessu tilfelli eigum við ekki að þurfa að sækja um undanþágu.
Í fjórða og síðasta lagi er margt í ólagi og óljóst hvað varðar fjármál, deiliskipulag, útboð á færanlegum kennslustofum og öðrum hlutum sem tengjast þessum framkvæmdum. Hvar á að finna 500.000.000 til að fjármagna færanlegar kennslu­stofur? Sveitarfélagið er að fara yfir skuldaviðmið með fram­kvæmdinni samkvæmt nýút­kominni skýrslu KPMG. Væri ekki nær lagi að bíða, spara 500.000.000 og leyfa nemendum að hefja nám þegar hægt er að hefja kennslu í nýjum skóla?
Því hefur verið haldið fram af meirihluta bæjarstjórnar að við foreldrar viljum ekki nýjan skóla. Það er langt frá sannleikanum. Við fögnum uppbyggingu en það þarf að vera rétt staðið að ákvarðanatöku og fullkominn óþarfi að sjálfur bæjarstjórinn geri lítið úr málstað okkar foreldranna í viðtali við fjölmiðla. Við erum stór hópur áhyggjufullra foreldra, ekki örfáar tuðandi kellingar.

Fyrir hönd foreldra,
Jónína Guðmundsdóttir.

Nýjar fréttir