-6.1 C
Selfoss

Pípuorgelið í Eyrarbakkakirkju hreinsað og stillt 

Vinsælast

Það er ekki á hverjum degi sem pípuorgel eru tekin sundur og hreinsuð, en í Eyrarbakkakirkju var ráðist í að hreinsa orgelið upp enda kominn tími á það. Pípuorgelið á Eyrarbakka var sett upp í kirkjunnil árið 1995. Það var orgelsmiðurinn Björgvin Tómasson á Stokkseyri sem smíðaði orgelið en orgelið er það 13. í röðinni úr smiðju Björgvins. Nú er hann kominn að nýju ásamt konu sinni Margréti Erlingsdóttur til þess að hreinsa orgelið upp. „Þetta rykfellur eins og annað. Það þarf að hreinsa orgelin upp á 18 til 20 ára fresti.  Það er ekki gott þegar rykið safnast upp í orgelunum því þá verður tónninn hreinlega loðinn og rykugur,“ segir Björgvin og brosir. Björgvin og frú eru búin að taka orgelið sundur og setja pípurnar til hliðar meðan unnið er að því að hreinsa hvern krók og kima. Þá eru pípurnar stroknar og ryk losað úr þeim. Það er augljóst á umstanginu við hreinsunina að það þarf sérfræði þekkingu til að standa að henni.

Tekur drjúgan tíma að hreinsa eitt orgel

„Þetta tekur drjúgan tíma og það má ekkert vera að flýta sér við þetta,“ segir Björgvin. Þau fara ofan í hverja pípu fyrir sig með sérstökum burstum og þá er strokið af hverjum fleti þar sem ryk hefur safnast saman. Það er á þeim að heyra að svona verkefni séu gjarnan talin í vikum fremur en dögum.  Aðspurð um muninn á orgelum fyrir og eftir hreinsun segja þau bæði: „Það er oft heilmikill munur. Orgelið getur verið mikil rykgeymsla og haft áhrif á loftgæði í húsinu. Þegar búið er að hreinsa það finnur fólk oft mikinn mun á því. Þá er nú ekki talað um hljómgæðin. Tónninn verður hreinni og tærari og á stundum finnst fólki hljóðfærið vera sem nýtt og kórinn tekur heljarstökk af ánægju.“

Ekki bara pípurnar sem sjást að framanverðu

Það er ansi merkilegt að sjá orgelið sundur tekið og átta sig á því hve flókið hljóðfærið er. Í orgelinu eru hvorki fleiri né færri en 756 pípur. Það hefur 13 raddir, tvö hljómborð og pedal. Í gegnum allt þetta fara Björgvin og Margrét af nákvæmni. Hluti af pípunum eru búnar til úr blöndu af blýi og tini. Þá eru stóru pípurnar úr við. Björgvin kveikir á orgelinu og leyfir okkur að heyra dýpsta tóninn sem fyllir kirkjuna, dimmur og dökkur. Bjartasti tónninn minnir á skæra flautu, en pípan sem framleiðir hann er örgrönn og smágerð.

Nýjar fréttir