-5 C
Selfoss

Tekurðu lífinu of alvarlega?

Vinsælast

Þegar ég var lítil stelpa dreymdi mig um að læra að dansa. Ég horfði á danskeppnir sem voru sýndar í sjónvarpinu með aðdáunaraugum. Í bænum sem ég bjó í var ekki hægt að læra dans en íþróttakennararnir gerðu sitt besta og kenndu okkur einföld spor í gömlu dönsunum. Ég var hávaxinn og það fáir strákar í bekknum að ég þurfti að dansa karlmannssporið. Það var allavega betra en ekkert.

Ég hugsaði með mér að ef ég aðeins byggi nær höfuðborginni þá gæti ég lært dans. Svo gerðist það, ég flutti á suðurlandsundirlendið. Þegar ég nú átti möguleika á að láta draumin rætast þá þorði ég því ekki.. Ég vildi ekki láta á mér bera og var hrædd við álit annarra. Það sem ég áttaði mig svo á seinna meir var að mig vantaði sjálfstraust til að fylgja eftir mínum eigin draumum. Ég var mjög góð í að falla inn í fjöldann. Ég var góð í að vera sammála síðasta ræðumanni. Ég var góð í að lesa upplifanir og tilfinningar annarra. En að hlusta á sjálfa mig, hvað var það?

Það var ekki fyrr en ég fór að vinna markvisst í sjálfri mér að ég fór að átta mig á því að ég hafði skoðanir, langanir, þrár og drauma sem ég þráði að fylgja eftir. Guð hafði gefið mér allskyns gjafir við fæðingu sem ég hafði kæft. Þegar ég fór að átta mig á því þá fór ég að týna lögin ofan af og opna gjafirnar. Þvílíkt frelsi sem það er að fá að vera maður sjálfur. Það var enginn sem hafði sagt við mig að ég mætti ekki nota þessar gjafir eða fylgja mínum draumum. Það var ég sjálf sem eins og setti sjálfa mig í kassa.

Fyrir nokkrum árum síðan las ég bók sem hafði góð áhrif á líf mitt. Þessi bók heitir Emotionally Healthy Spirituality og er eftir mann að nafni Pete Scazzero. Í þessari bók er fjallað um margt sem tengist því að læra þekkja sjálfan sig betur og vaxa andlega. Það var eftir lestur þessarar bókar sem ég fór að gera það að hefð í lífi mínu að taka hvíldar/hleðsludaga sem hefur haft mjög góð áhrif á líf mitt. Á einum stað í bókinni er sérstaklega talað um það að taka lífinu ekki of alvarlega og leika sér meira. Ég áttaði mig á því að ég hef allt of oft tekið lífinu of alvarlega. Bæði sem barn, unglingur og fullorðin kona. Þegar maður fylgist með börnum að leik þá er í flestum tilfellum hægt að skynja gleði og ánægju. Það er eðlilegt að  börn spái ekki í því hvað aðrir eru að hugsa þegar þau leika sér. Því miður er það samt ekki alltaf svo. Það eru börn sem taka lífinu of alvarlega af þvi að þau bera mikla ábyrgð og byrgðar sem þau eiga ekki að bera.  Ef þú ert fullorðin einstaklingur sem hefur tekið lífinu of alvarlega, jafnvel líka sem barn þá hvet ég þig til að leyfa barninu í þér að koma fram. Leyfðu þér að gleðjast og hafa gaman án þess að þurfa vímuefni við hönd. Við búum á svo fallegu landi. Lífið er gjöf, – hver dagur er gjöf.  Það að gleðjast og hafa gaman getur þýtt það að hlæja meira með öðrum, standa með sjálfum sér, gleyma sér í smástund, prófa eitthvað nýtt og rækta hæfleika sína. Það getur þýtt það að njóta matarins sem þú ert að borða. Finna lyktina og áferðina. Það getur þýtt það að dansa við uppáhalds tónlistina þína. Fara í göngutúr og njóta náttúrunnar og þess einstaka landslags sem við höfum hér á landi.

Ég átti mér draum um að læra dans sem barn. Sá draumur hefur ekki enn orðið að veruleika en er á “to do” listanum þegar hægt verður sökum takmarkana í landinu okkar. Þó svo ég hafi ekki lært danssporin þá elska ég samt að dansa og hef leyft þeirri löngun og þrá að koma meira og meira upp á yfirborðið eftir því sem ég hef orðið minna vandræðaleg gagnvart sjálfri mér.  Ég dansa heima hjá mér. Kveiki á skemmtilegri tónlist og dilla mér. Öðrum þykir kannski asnalegt hvernig ég dansa en það skiptir ekki máli. Maður þarf að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Líka þegar maður heldur að maður sé einn inn í bílskúr að dansa þegar allt í einu einu tveir drengir stökkva út úr skápnum í bílskúrnum þar sem þeir voru á svo góðum stað í feluleik.

Hvað veitir þér gleði og ánægju? Það er spurning sem þú ein/n getur svarað.

 

Eigðu gleðiríkan dag.

Gunna Stella

Hlaðvarp: Einfaldara líf

Heimasíða: www.gunnastella.is

 

 

Nýjar fréttir