-8.9 C
Selfoss

Forseti Íslands afhendir Menntaverðlaun Suðurlands 2020

Vinsælast

Menntaverðlaun Suðurlands 2020, sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita, voru afhent í þrettánda sinn fimmtudaginn 14. janúar sl. á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands. Athöfnin fór fram í fjarfundi og var send út frá Fjölheimum á Selfossi.

Snjólaug Elín Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir kennarar við Grunnskóla Vestmannaeyja hlutu verðlaunin fyrir frumkvöðlastarfsemi á menntasviði með verkefninu „Út fyrir bókina“. Í rökstuðningi þeirra sem stóðu að tilnefningu þeirra kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Út fyrir bókina“ er heimasíða og Fésbókarsíða þar sem þær deila kennsluefni fyrir yngstu bekki grunnskóla sem þær hafa útbúið til að gæða kennsluna lífi, vekja áhuga og koma kennslunni út fyrir bókina. Verkefnin eru hönnuð þannig að þau nálgist áhugasvið barna m.a. í gegnum leik og eru öllum aðgengileg án endurgjalds.

Frumkvöðlastarf og nýsköpun af þessu tagi tengir skólastarfið við samfélagið sem er mikilvægt, ekki síst á tímum eins og í dag þegar nemendur dvelja meira heima við þar sem foreldrar og forráðamenn taka aukinn þátt í námi þeirra.

Það var formaður SASS, Ásgerður Kristín Gylfadóttir sem tilkynnti niðurstöður valnefndar. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson afhenti svo verðlaunin yfir netið til Snjólaugar Elínar og Unnar Lífar.

Nýjar fréttir