-7 C
Selfoss

Á að loka framtíðina inni?

Vinsælast

Náttúruvernd er samofin þjóðarsálinni. Hún á sér uppsprettu og talsmenn í öllu litrófi stjórnmálanna. Sama má segja um loftslagsmálin. Stærsta framlag okkar til þeirra er orkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum. Atvinnuvegir og atvinnutækifæri komandi kynslóða munu byggja á þeim möguleikum sem felast í nýtingu orkunnar í landinu;  til að skapa hér fjölbreytt og vel launuð störf í nýjum greinum. Vetnisframleiðsla og hátæknigeiri framtíðarinnar mun krefjast hreinu orkunnar okkar. Íslendingar mega því ekki loka á aðgang að auðlindum framtíðarinnar með ótímabærri löggjöf.

Ætlum við að uppfylla Parísarsamkomulagið?

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð nær yfir um 30% af flatarmáli landsins. Þar af er um helmingur svæðisins þegar friðlýstur. Um er að ræða Vatnajökulsþjóðgarð sem nær yfir um 14% af flatarmáli landsins, auk friðlýstra svæða á miðhálendinu í umsjón Umhverfisstofnunar. Þessir 33.000 ferkílómetrar þjóðgarðs að viðbættum jaðarsvæðum mun hafa áhrif á virkjanakosti en stærsti hluti raforkuframleiðslu landsins (tæplega 70%) er upprunninn innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs og þar liggja einnig stór hluti ónýttra endurnýjanlegra orkuauðlinda landsins.

Stærð virkjunarkosta innan marka þjóðgarðsins nemur samtals 2200 MW eða 79% af uppsettu raforkuafli á Íslandi. Hluti þeirrar orku, eða um 300 MW þarf að nýta til að Íslendingar uppfylli Parísasamkomulagið um loftlagsmál sem Íslendingar eru aðilar að. Staðreyndirnar eru því þessar:

  • 300 MW þarf til að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreinan innlendan orkugjafa í samgöngum til að uppfylla Parísarsamkomulagið.
  • 600 MW þarf til að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir bílaflotann fyrir 2030.
  • 1200 MW þarf fyrir full orkuskipti bíla, skipa og flugvéla innanlands fyrir 2030.
  • Framleiðsla vetnis er orkufrek framleiðsla sem oft er kallað gull framtíðar.

Ísland er nær eina landið í heiminum sem fyrir 30 árum lauk því ferli að gera atvinnulífið og heimilin sjálfbært með orku. Orkan okkar kemur frá endurnýjanlegum auðlindum. Því miður hefur okkur ekki tekist að nýta þessa sérstöðu í  lofslagssamningum við önnur lönd.

Hvaða áhrif mun stofnun þjóðgarðs hafa?

Hugmyndin er að fyrirhugaður Hálendisþjóðgarður verði flokkaður í verndarflokkun samkvæmt IUCN verndarflokkunarkerfinu. Það kerfi útilokar hefðbundna orkuframleiðslu og tengingu nýrra virkjana með loftlínum. Einnig mun það útiloka styrkingu og endurnýjun á flutningskerfi raforku til framtíðar, innan Hálendisþjóðgarðsins og áhrifasvæða hans. Þessar áætlanir munu loka á tækifæri framtíðarinnar.

Sveitastjórnir og bændur hafa hingað til séð um að vernda og græða miðhálendið. Í stjórn Hálendisþjóðgarðs, sem ráðherra skipar, munu sitja ellefu fulltrúar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skipi a.m.k. níu fulltrúa í umdæmisráð sem fara með málefni rekstrarsvæða Hálendisþjóðgarðsins. Rekstrarsvæðin verða a.m.k. sex talsins. Þetta verða því a.m.k. 54 fulltrúar, auk 11 manna í stjórn. Það er fátt eðlilegt við það að 14 fulltrúar umhverfis- og útivistarsamtaka sem eru frjáls samtök á höfuðborgarsvæðinu eigi að bera ábyrgð á stjórnunar- og verndaráætlun umdæmanna. Fólk sem ber enga ábyrgð gagnvart atvinnulífinu eða íbúum svæðanna enda ekki til þess kjörið af fólkinu. Það er kannski tímanna tákn að umboðslaust fólk af malbikinu setji bændum og íbúum dreifbýlisins reglur um þeirra nánasta umhverfi.  Fólkið, börn náttúrunnar, sem hefur byggt afkomu sína á gæðum hálendisins og skapað þar tækifæri til atvinnulífs í ferðaþjónustu á betra skilið. Ekki nokkur maður þekkir það betur á eigin skinni en bóndinn. Bændur lifa í sátt við náttúruna og landið. Um það samband eiga eðlilega að gilda reglur sem við höfum nú þegar.

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu hefur verið fellt brott ákvæði um að sveitarstjórnir verði bundnar af stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins sem er meginstjórntæki þjóðgarðsins. Í stjórnunar- og verndaráætlun verður hins vegar að finna almenn skilyrði um atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins sem mun hafa áhrif á gerð atvinnustefnu og leyfisveitingar fyrir atvinnutengda starfsemi. Þannig þurfa allar ákvarðanir og athafnir innan þjóðgarðs að samræmast stjórnunar- og verndaráætlun. Ráðherra hefur farið mikinn í að tala um að virkjanakostir verði á skilgreindum jaðarsvæðum og ekki hluti hins friðlýsta svæðis. Því skal hins vegar haldið til haga að stjórnunar- og verndaráætlun Hálendisþjóðgarðsins nær einnig til jaðarsvæða þjóðgarðsins þar sem gera má ráð fyrir orkunýtingu. Sökum nálægðar við þjóðgarðinn er í frumvarpinu og í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins settir tilteknir skilmálar um umgengni á þessum jaðarsvæðum.

Alþjóðlegt mont?

Það virðist vera markmiðið með frumvarpinu að koma á fót stærsta þjóðgarði í Evrópu og slá þar með ryk í augu Rússa, sem eru nú með einn stærsta þjóðgarðinn sem þekur nærri 11% af öllu landinu. Ég velti því hins vegar fyrir mér hverju þjóðargarðurinn muni raunverulega skila fyrir þjóðarbúið, sér í lagi þar sem atvinnutækifærin innan marka hans verða takmörkuð. Þjóðgarðar eru að mínu mati mikilvægir fyrir verndun náttúrunnar, þó ekki sé nauðsynlegt að taka 30% landsins undir slíka starfsemi. Á það hefur verið bent að skynsamlegra hefði verið að sameina þau landsvæði á miðhálendinu sem þegar hafa verið skilgreind sem sérstök verndar og friðlýst svæði undir einn hatt Hálendisþjóðgarðs.

Þjóðgarðarnir á Íslandi telja nú þrjá. Í byrjun nóvember kynnti umhverfisráðherra áform um stofnun fjórða þjóðgarðsins á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá eru friðlýst svæði og svæði sem njóta sérstakrar verndar í kringum 120 á landinu öllu og þeim fjölgar ört. Hugsunargangur og stjórnkerfi í frumvarpi um Hálendisþjóðgarð sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi gengur ekki upp. Það er hlutverk okkar að tryggja aðgengi framtíðarkynslóða að sjálfbærum endurnýjanlegum orkugjöfum, jafnt til heimilisþarfa og grænnar atvinnuuppbyggingar.

 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

 

 

Nýjar fréttir