-8.3 C
Selfoss

Vetrarstígur lagður í Hveragerði þegar snjóar

Vinsælast

Tilboði Icebikeadventures ehf um að hanna, leggja, kynna og sjá um Vetrarstíg í Hveragerði var samþykkt á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 19. nóvember sl. Í verkefninu felst að um leið og snjóar nægilega mun fyrirtækið troða fjölnota-spor sem hjólandi, gangandi, hlaupandi og skíðandi geta nýtt sér. Verður stígurinn í dalnum ofan við Hveragerði, Vorsabæjarvöllum, og á golfvelli Hvergerðinga. Verður um að ræða tvær brautir annars vegar 6 km og hins vegar 4 km.

Heilsueflandi verkefni sem samræmist samkomutakmörkunum

Í minnisblaði sem lagt var fram á fundi bæjarráðs kemur fram að forsvarsmenn fyrirtækisins telji að verkefnið geti verið íbúum til heilsubótar og skemmtunar og dregið að innlenda ferðamenn í vetur – gönguskíðafólk, hjólreiðamenn, göngufólk og hlaupara sem nú þyrstir í nýjar leiðir og upplifanir. Gera megi ráð fyrir að brýn þörf verði á afþreyingarmöguleikum fyrir almenning í vetur sem samræmast hvers kyns samkomutakmörkunumþ

Stígurinn troðinn í allt að tólf skipti í vetur

Bæjarráð hefur heimilaði að stígurinn verði troðinn í allt að 12 skipti á tímabilinu í janúar til mars 2021 . Í bókun bæjarráðs kom m.a. fram að með tilkomu sérstakrar brautar á skógræktarsvæðinu inni í Dal verði til alveg nýr möguleiki á iðkun fjölbreyttar útivistar yfir vetrarmánuðina.

Staðsetning bæjarins aðlaðandi fyrir gesti

Hveragerði er vel staðsett bæjarfélag í einungis 30 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Í bæjarfélaginu eru margir skemmtilegir gisti- og veitingastaðir auk afþreyingar. Með tilkomu skipulagðs stígs að vetrarlagi sem nýst getur til fjölbreyttrar útivistar getur Hveragerðisbær boðið gestum bæjarins og íbúum enn eina afþreyinguna og þannig ýtt undir atvinnulíf og bætt búsetu skilyrði í bæjarfélaginu.

 

Nýjar fréttir