Já, kóvitið smeygir sér víða. Á brauðinu hér að ofan sem kallað var „kóvidkall“, má greina dapran mann með grímu. Laufabrauðskurðurinn er fámennur þessa dagana og minnir hálfpartinn á baðstofustemninguna þegar hver fékk sína kökuna til að skreyta fyrir jólin. Það er ákveðin nostalgía og gleði fólgin í því!
Einhver húmoristinn hefur rist þennan ágæta karl eða konu með grímu fyrir vitum. Þarna vantar ekkert nema dálítið af tvíreyktu hangilæri, jafnvel smá smjörklípu og malt fyrst þeir hafa skrúfað fyrir jólaölið.