-4.1 C
Selfoss

Bílar, bensín og góðar sögur

Vinsælast

Við litum við í skúrinn hjá Ragnari S. Ragnarsyni á Selfossi til að spyrja út í tilurð bókarinnar Mótorhausasögur sem bókaútgáfan Sæmundur gefur út. Mótorhausasögur segja sannar og sannlognar sögur af fólki sem á það sammerkt að vera í, við eða í kringum bíla. Gamansögur af hrakföllum og undarlegum aðstæðum fólks í kringum allskonar bíla og dráttarvélar eru inntak bókarinnar. Þetta eru sögur fyrir fullorðna, sem gerast hérlendis sem erlendis. Í lokakafla bókarinnar eru vísur og leirburður sem tengjast bílum á einn eða annan hátt. Allt saman til þess eins að skemmta lesendum.

Ekki verið skammaður ennþá

Undan fagurrauðum Dodge Charger sem liggur makindalega í skúrnum koma fætur. Það er race-bensín lykt í loftinu. Hún er dálítið öðruvísi fyrir þá sem ekki þekkja og jafnvel meira ávanabindandi en hefðbundin. Það er verið að smella pústkerfinu aftur undir kaggann því síðasta keppnin í Íslandsmeistaramótinu í kvartmílu var blásin af vegna veirunnar, okkar manni til armæðu. Meðan hann liggur læt ég vaða í fyrstu spurninguna: Er ekki búið að skamma þig neitt fyrir þessar sögur? Það kemur hreyfing á fæturna og maðurinn rennir sér undan bílnum. „Nei, en vonandi gerist það bráðlega. Það er ekkert fútt í að gefa út bók sem leiðir ekki af sér skammir yfir höfundinn. Það eru til dæmis bæði karlrembu- og kvenrembusögur í bókinni sem geta aukið blóðþrýsting sumra verulega. Viðbrögðin til þessa hafa þó einungis verið jákvæð. Til dæmis sagðist einn kaupandinn ekki geta lesið bókina fyrir hlátri. Mér þótti vænt um þá umsögn í fyrstu, þar til ég áttaði mig á því að það væri óskynsamlegt að gefa út 296 blaðsíðna bók sem fólk gæti svo ekki lesið fyrir hlátri,“ segir Ragnar upp staðinn og brosandi.

Það er bara svo ólýsanlega gaman að keyra hratt

Þegar við förum að spjalla saman vottar fyrir norðlensku stolti þegar hann segist borinn og barnfæddur Akureyringur sem hefur búið á Selfossi frá 1992. Spurður út í áhugamálið liggur ekki á svörum. „Tómstundunum ver ég í að gera upp vélar og bíla og stunda kappakstur en svo dregur Inga, konan mín og félagsforingi skátafélagsins Fossbúa, mig í fjallgöngur þess á milli. Ég hef þrisvar orðið íslandsmeistari í kvartmílu og er alltaf að reyna að hætta að keppa. Það er bara svo ólýsanlega gaman og spennandi að vera kominn á 190 kílómetra hraða eftir 400 metra akstur úr kyrrstöðu.“ Það er auðséð og heyrt að höfundur bókarinnar gengur sjálfur fyrir bensíni og er með ólæknandi bíladellu. Hann veðrast allur upp við að ræða um kappakstur, rymjandi átta gata tryllitæki og brennt gúmmí. Við gleymum okkur um stund í þessum hugleiðingum en færum okkur snögglega aftur að bókinni góðu.

Safnað sögum frá því hann man eftir sér

Ég spyr hvort sagnaarfur af þessari tegund sé gleymdur hluti sögunnar. „Almennt er hann ekki í gleymsku. Hitt er annað mál að ég veit ekki til að þessi hluti, íslenskum munnmælasögum sem gerast í kringum bifreiðar, hafi verið safnað saman í eitt rit. Þetta eru sögur sem ég hef heyrt úr munni góðs sagnafólks frá því ég man eftir mér. Ég ákvað að færa þær í letur áður en ég gleymi þeim sjálfur og í þeirri von að gleðja geð lesenda; ekki veitir nú af því í þessu vírushreti.“ Það er við hæfi að enda viðtalið á einni frásögn úr bókinni. Frásögn sem kitlaði að minnsta mínar hláturtaugar. Sagan er af bændasonum norðan úr Fnjóskadal, sem kunna öðrum fremur að bjarga sér. Þeir þurftu að bora lítið gat í mælaborðið á forláta Willys. Borvélin á sveitabænum var biluð. Þetta vafðist ekki lengi fyrir þeim og ákveðið var að skjóta gat í mælaborðið með riffli. Gatið fór á hárréttan stað en kúlan fór líka í gegnum hvalbakinn og endaði í vatnskassanum. Það þótti samt lítið mál að gera við vatnskassa á þessum bæ og málið taldist leyst! Við þökkum Ragnari fyrir hlýjar móttökur og góðar sögur.

Nýjar fréttir