Það er ánægjulegt að sjá að mannfjöldaþróun í Sveitarfélaginu Ölfusi er með jákvæðum hætti og óhætt að segja að sú þróun byggir á þeirri miklu og góðu vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Í vor skrifaði fyrrverandi bæjarstjóri Ölfuss grein um Þorlákshöfn og þau stóru framfararskref sem stigin voru við höfnina á síðasta kjörtímabili en raunar teygir undirbúningur þeirrar vinnu sig aftur til ársins 2014. Ljóst er að uppskera góðra verka getur varað í mörg ár og ekki uppsker alltaf sá sem sáir. Hafnarverkefnið er ekki það eina sem styrkt hefur byggð og búsetukosti í Ölfusi og það eru í raun önnur verkefni sem voru flöskuháls fyrir íbúafjöldaaukningu bæði í Þorlákshöfn og í dreifbýlinu.
Ýldulyktin sem hélt Þorlákshöfn í gíslingu
Það er hægt að berja sér á brjóst í hamingjukasti yfir jákvæðri íbúaþróun í Ölfusi í dag en það er rétt að halda því til haga að lykilforsenda fyrir eftirspurn eftir nýjum byggingarlóðum í þéttbýlinu Þorlákshöfn var lausn á langstærsta vandamáli samfélagsins til margra ára. Megnan óþef frá fiskþurrkun á hafnarsvæðinu lagði yfir bæinn, sérstaklega á góðviðrisdögum og hreinlega fældi fólk frá staðnum. Þáverandi bæjarstjóri ásamt forseta bæjarstjórnar, í umboði bæjarstjórnar, leiddu viðræður við Lýsi um flutning á fiskþurrkunarverksmiðju félagsins út fyrir bæinn, á svæði sem valið var með tilliti til fjarlægðar við þéttbýlið og ríkjandi vindáttir. Það var ekki sjálfgefið að besta niðurstaða fengist úr þessari vegferð og margir höfðu efasemdir. Forstjóri Lýsis á miklar þakkir skyldar fyrir jákvæða nálgun á verkefnið en bygging nýrrar og sérhannaðrar verksmiðju var langt komin við lok síðasta kjörtímabils.
Fleiri aðila þurfti til svo vel mætti til takast því það svæði sem skipulagt var á þessum tíma var hugsað fyrir sókn í atvinnumálum. Innviðir þurftu að vera til staðar til samræmis við framtíðarsýn og því gegndu Veitur mikilvægu hlutverki og starfsmenn þar eiga þakkir skyldar fyrir gott samstarf. Vegagerðin lagði líka hönd á plóg en glæsilegur malbikaður göngu- og hjólastígur liggur milli þéttbýlisins og iðnaðarsvæðisins vestan þess. Svæðið er stórt og hugsað fyrir umhverfisvæna starfsemi sem mögulega getur haft í för með sér lyktaráhrif. Á síðasta kjörtímabili voru viðræður hafnar við nokkra aðila um flutning á svæðið, m.a. Síld og fisk og Einingaverksmiðjuna.
Þetta verkefni í heild tókst með eindæmum vel enda geta íbúar Þorlákshafnar nú notið blíðviðris, þurrkað þvott utandyra og haft glugga opna án truflunar frá þessari starfsemi.
Leikskólapláss fyrir börn í dreifbýli Ölfuss o.fl.
Það þarf sterka innviði og skýra framtíðarsýn til að byggja upp öflugt samfélag. Árið 2014 markaði tímamót fyrir íbúa og búsetuskilyrði í dreifbýli Ölfuss en á því ári var bæði samið um lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu og um kaup Ölfuss á hlut í leikskólum Hveragerðisbæjar. Yfir 99% heimila í sveitarfélaginu öllu höfðu þá kost á að fá til sín ljósleiðaratengingu hjá Gagnaveitu Reykjavíkur og fóru framkvæmdir að mestu fram á árunum 2014 og 2015. Þarna var Sveitarfélagið Ölfus á undan flestum sveitarfélögum landsins í slíkri tæknivæðingu sem styrkti innviði dreifbýlisins mikið. Kaupin á hlut í leikskólum Hveragerðisbæjar voru stórt framfararskref fyrir íbúa dreifbýlisins en mörg árin á undan hafði verið löng bið eftir leikskólaplássum í Hveragerði. Árið 2017 var svo byggður nýr og glæsilegur leikskóli í Hveragerði með þátttöku Sveitarfélagsins Ölfuss.
Ölfus eignaðist landið undir íbúðabyggðinni í Gljúfurárholti árið 2016 og alla innviði, s.s. götur, stíga, lýsingu og veitur. Þetta og sú þjónustubót sem að framan er nefnd gerði það að verkum að samfélagið fékk aftur trú á uppbyggingu í Gljúfurárholti. Boruð var ný neysluvatnshola árið 2017 fyrir dreifbýlisvatnsveituna Berglindi og veituhús byggt yfir holuna. Þessi framkvæmd var þörf og ljóst að hún myndi hafa gríðarlega jákvæð áhrif á búsetuskilyrði og íbúafjöldaþróun í dreifbýlinu.
Hamingjan er hér!
Auglýsingarátakið „Hamingjan er hér“ er algerlega einstakt á landsvísu, það fór vart framhjá nokkrum landsmanni og verðmæti þess fyrir sveitarfélagið er mikið. Þegar farið var af stað í undirbúning þess var fyrir séð að ekki væri hægt að opinbera það fyrr en framkvæmdir væru hafnar við nýju fiskþurrkunarverksmiðjuna svo neikvæð áhrif hafði lyktin á allt umtal um staðinn.
Hér er ekki tæmandi talning á jákvæðum verkefnum en sagan sýnir að mikill og jákvæður tími umbreytinga hefur átt sér stað í sveitarfélaginu, horft yfir síðasta áratug. Upplýsingar um starfsemi Ölfuss á árunum 2014-2018 er hægt að nálgast á vefsíðu sveitarfélagsins olfus.is í greinargerðum með fjárhagsáætlunum þessara ára.
Jákvæð íbúafjöldaþróun í Ölfusi var ekki að byrja á núlíðandi kjörtímabili eins og sjá má á íbúafjöldatölum á vefsíðu Hagstofu Íslands. Eftirfarandi mynd segir meira en mörg orð:
Gunnsteinn R. Ómarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ölfuss
Sveinn S. Steinarsson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Ölfuss