Á morgun laugardaginn 27. maí verður verslun the Pier opnuð að Austurvegi 69 á Selfossi. The Pier rekur nú þegar þrjár verslanir á Íslandi, á Smáratorgi, Korputorgi og Glerátorgi á Akureyri. Einnig eru verslanir í Færeyjum, Lettlandi, Litháen og Eistlandi.
Vörurnar í the Pier eru á margan hátt öðruvísi en gengur og gerist og mjög áhugaverðar. Innkaupastjórar fyrirtækisins ferðast um allan heim í endalausri leit að fallegum vörum á góðu verði. Á heimasíðu fyrirtækisins segir: „…að ganga í gegnum the Pier er ævintýri líkast og minnir helst á að vera á ferðalagi í gegnum hin ýmsu lönd heimsins. Litir, ilmir og tónar skapa þessa góðu stemningu sem flæðir um verslanirnar.“
Opnunarhátíð á Selfossi á laugardaginn
Edda Margrét Stefánsdóttir Arndal er verslunarstjóri nýju verslunarinnar á Selfossi. Hún var tekin tali í síðustu viku.
„Við opnum næsta laugardag og verðum með smá opnunarhátíð þar sem við bjóðum m.a. upp á léttar veitingar frá tólf til tvö, trúbadora sem spila, og svo verða flott opnunartilboð á húsgögnum, smávörum, kertum og ýmsum fleiri vörum.“
Gjafavörur og húsgögn
Verslunin the Pier sérhæfir sig í gjafavörum og húsgögnum og er með flest allt fyrir heimilið. Þar má nefna búsáhöld, spegla, rúmteppi og púða. „Við erum þekkt fyrir að vera öðruvísi og framandi og erum alltaf að taka upp nýjar vörur. Jólin okkar eru alltaf mjög spennandi og vöruúrvalið aldrei meira en þá“ segir Edda.
„Okkur langar svolítið að prófa þetta svæði hérna á Selfossi. Við erum á tveimur stöðum í Reykjavík og svo erum við á Akureyri. Okkur fannst vera grundvöllur fyrir því að vera hér á Suðurlandi. Við erum þá líka að hugsa um að ná til sumarbústaðanna og fólksins í sveitunum.“
The Pier er í frekar stóru húsnæði á Selfossi og er þar af leiðandi með gott lagerpláss. Þau ætla að reyna að vera góð í því að þjónusta fólk þannig að það fái vörurnar strax, þurfi ekki að bíða. „Það ætti að vera ákveðinn plús,“ segir Edda.
Nýtt útlit á búínni
„Svo erum við að prófa nýtt útlit á búðinni. Það hefur aldrei verið nein ákveðin lína í útlitinu hjá okkur. Við ætlum að reyna að gera þetta eins smart og við getum. Þetta er svolítið gróft „look“ og vonandi náum við að setja það í fleiri búðir þ.e. ef þetta heppnast.“
Edda segir að hún sé spennt að koma á Selfoss. „Ég er að flytja í Hrunamannahreppinn en er ættuð úr Gnúpverjahreppnum. Vonandi tekur Suðurlandið vel á móti okkur þar sem við hlökkum til að þjónusta það,“ segir Edda að lokum.